Yfir hundrað hafernir hafa drepist í vindmyllugarði í Noregi

Vindmyllur virðast geta orðið fuglum ansi skeinuhættar.

Yfir hundrað hafernir hafa nú fundist dauðir í eða við vindmyllugarðinn í Smøla á Mæri og í Romsdal í Noregi, frá því að talning hófst árið 2006. Frá þessu greinir Norska dagblaðið í gær.

Skráning fugla sem drepist hafa í vindtúrbínunum hófst árið 2006, og frá þeim tíma og þar til í apríl 2019 hafa fundist 96 dauðir hafernir, en fleiri tilkynningar hafa borist síðan þá og er nú talið að þeir séu komnir yfir hundrað skv. Norsku náttúrufræðistofnuninni.

Haförnin er alfriðuð á Íslandi og í Noregi. Mynd/nmsi.is

Rannsakendur hafa á þessum tíma skráð yfir 500 fugla sem hafa drepist í vindmyllunum. Auk hafarnanna, sem eru alfriðaðir í Noregi, drápust um 200 rjúpur, þrír kóngsernir og fjöldi fálka. Í valkestinum liggur að auki fjöldi algengari fuglategunda, á borð við svani, gæsir og krákur.

Torgeir Nygård, yfirmaður Rannsóknarstofnunar um náttúrulíf í Noregi (NINA) segir: „Þetta er bara brot af öllum þeim fuglum sem hafa drepist“, en vindmyllugarðurinn í Smøla er aðeins einn af mörgum í Evrópu.