„Fyrir liggur að orkupakki þrjú hefur ekki í för með sér skerðingu á fullveldi þjóðarinnar. Hann þýðir ekki sjálfkrafa einkavæðingu Landsvirkjunar. Hann breytir engu um orkuverðið á Íslandi. Hann opnar ekki sjálfkrafa fyrir lagningu sæstrengs frá landinu. Hann felur ekki í sér framsal á eignarhaldi á orkuauðlindum. Málin sem tilheyra orkupakka þrjú eru í raun smámál miðað við mörg þau mál sem hingað koma frá Evrópu,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á þingi í dag í atkvæðagreiðslum um þriðja orkupakkann.
„Hinu má ekki gleyma að EES-samningurinn hefur haft það í för með sér að hingað berast mál sem lesa þarf sérstaklega með hliðsjón af fullveldi þjóðarinnar. Það höfum við gert og það munum við gera áfram,“ bætti hún við.
Svandís vék einnig orðum að þætti Miðflokksins í deilunni um orkupakkann og sagði:
„Loks verður að muna að yfirgangurinn sem Miðflokkurinn hefur beitt Alþingi og þjóðina í þessu máli má ekki endurtaka sig.“