„Enn ein kolsvört skýrsla – enn einn áfellisdómurinn yfir stjórnkerfi Reykjavíkur. Þann 20. desember var skýrslunni skilað til borgarstjóra. Nú er hún loks komin á dagskrá borgarráðs og þá sem svar við fyrirspurn minni. Ekki að frumkvæði borgarstjóra.“
Þetta segir í bókun borgarfulltrúans Vigdísar Hauksdóttur, sem lögð var fram í borgarráði í dag, eftir að skýrsla Borgarskjalasafns um braggamálið hafði verið lögð fram.
Hægt er að lesa skýrsluna í heild sinni hér. Þar segir skýrt, að ekki hafi verið unnið lögum samkvæmt í stjórnsýslu borgarinnar í málinu.
Vigdís segir að ekki standi steinn yfir steini í vinnubrögðum borgarinnar og bendir á, að á einum stað í skýrslunni standi: „Í svari starfsmanns SEA segir „PDF væri best helst þannig að ekki sé hægt að opna þau“.
Í skýrslunni segir ennfremur:
Umrædd samskipti áttu sér stað í september 2018. Í næsta tölvupósti spyr starfsmaður Arkibúllunnar hvort fundargerðirnar séu opinberar og hvort fjölmiðlar eigi rétt á aðgangi að þeim. Starfsmaður SEA svarar því ekki en segist aðeins ætla að vista þær í GoPro en ekki dreifa þeim. Tölvupóstarnir voru vistaðir í GoPro 31. janúar 2019, sex dögum eftir að Borgarskjalasafn hóf athugun þessa.
Vigdís segir þetta hreina og klára hylmingu á opinberum gögnum. Í mörgum tilvikum hafi skjöl verið vistuð löngu eftir að þau voru búin til og svo mikil hafi ósvífnin verið að farið var í að vista mikið magn gagna eftir að Bragginn sprakk í andlit meirihlutans og eftir að Borgarsskjalasafn hóf athugun sína.
„Niðurstaða skýrslunnar er alveg skýr. Lög voru brotin, lög voru þverbrotin. Borgarstjóri verður að axla ábyrgð sem framkvæmdastjóri borgarinnar,“ segir Vigdís ennfremur.