Eftirfarandi yfirlýsing birtist á vef útgerðarfyrirtækisins Samherja í morgun:
I.
Í eftirfarandi yfirlýsingu vill Samherji hf. leitast við að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum í svokölluðu Namibíumáli og jafnframt gera grein fyrir nokkrum helstu niðurstöðum úr rannsókn norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein. Fyrir alllöngu stóð til að kynna þær niðurstöður fyrir íslenskum stjórnvöldum en af alkunnum ástæðum hefur því ítrekað verið frestað. Þótt enn hafi ekki orðið af þeirri kynningu þykir nú rétt að gera grein fyrir athugasemdum Samherja varðandi helstu niðurstöður rannsóknarinnar.
II.
Í Namibíu eru nú rekin refsimál gegn allmörgum Namibíumönnum sem sakaðir eru um ýmis afbrot, þar á meðal að hafa þegið mútur frá starfsmönnum Samherja. Engir starfsmenn Samherja eða félög í eigu Samherja eru á meðal ákærðra í þessum málum. Hins vegar er jafnframt rekið kyrrsetningarmál gagnvart nokkrum aðilum þar sem krafist er kyrrsetningar á þeim eignum sem m.a. félög Samherja eiga í landinu. Hinn 31. maí síðastliðinn skiluðu forsvarsmenn Samherja formlegri málsvörn vegna þess máls. Er það í fyrsta sinn sem Samherji eða félög tengd Samherja fá tækifæri til að leggja fram gögn og taka til varna fyrir opinberum dómstólum gagnvart þeim þungu ásökunum sem á félagið hafa verið bornar. Hafa þau gögn verið gerð opinber og eru öllum aðgengileg á vef namibíska dómstólsins.
III.
Sú viðamikla rannsókn sem ráðist var í af hálfu Wikborg Rein leiddi í ljós ákveðin atriði í rekstri félaga sem tengjast Samherja í Namibíu sem vöktu spurningar um vandaða viðskiptahætti og gátu aukið lagalega áhættu sem ekki hafði verið gætt nægilega vel að í starfsemi þeirra. Þá er það afstaða Samherja að ekki virðist alltaf hafa verið vandað nægilega til verka í rekstrinum og ekki var gætt þeirra ábyrgu sjónarmiða sem stjórnendur Samherja hafa ætíð haft að leiðarljósi, bæði hér á landi og erlendis. Í þessu ljósi fór fram umfangsmikil vinna innan Samherja við að koma á fót ítarlegu kerfi fyrir stjórnarhætti og regluvörslu, að vandaðri erlendri fyrirmynd, sem miða að því að tryggja að mistök af því tagi sem gerð voru endurtaki sig ekki. Reglur þessar voru samþykktar af stjórn Samherja í árslok 2020.
Helstu álitaefnin í skýrslu Wikborg Rein varða samskipti um veiðiréttindi sem aflað var með samningum við namibíska ríkisfyrirtækið Fischor og við félagið Namgomar Namibia sem réð yfir aflaheimildum á grundvelli tvíhliða samninga stjórnvalda í Namibíu og Angóla. Málaferlin sem vísað er í hér að framan standa nú yfir í Namibíu vegna þarlendra aðila sem tengdust þessum tveimur félögum.
IV.
Helstu niðurstöður Wikborg Rein um þessi viðskipti ásamt athugasemdum Samherja
1.
Að því er fram kemur í skýrslunni nutu félög tengd Samherja ráðgjafar innlendra ráðgjafa í Namibíu til að öðlast almenna þekkingu á namibískum sjávarútvegi og markaðsaðstæðum í landinu, þar með talið hvernig háttað væri aðgangi að aflaheimildum og veiðiréttindum. Nokkrir þessara ráðgjafa höfðu pólitísk tengsl og einn af þeim, sem leitað var til, var síðar skipaður stjórnarformaður ríkisútgerðarinnar National Fishing Corporation of Namibia (Fishcor). Hann og aðilar honum tengdir, veittu félögum tengdum Samherja þjónustu á grundvelli ráðgjafarsamnings.
2.
Ein af meginniðurstöðum rannsóknar Wikborg Rein er sú að ráðning þessara ráðgjafa, og það að láta óátalda aðkomu háttsettra aðila í stjórnkerfi Namibíu að ráðgjöf þeirra, hafi vakið spurningar um vandaða viðskiptahætti og aukið áhættu sem ekki var gætt nægilega vel að í starfsemi félaga sem tengjast Samherja í Namibíu. Þrátt fyrir að rannsóknin hafi sýnt fram á að óumdeild og raunveruleg ráðgjöf hafi verið veitt af hálfu ráðgjafanna í Namibíu í gegnum árin, fengu þeir greiðslur án greinargóðra skýringa og fylgiskjala vegna veittrar þjónustu.
Samherji hafnar alfarið ásökunum um mútugreiðslur en tekur undir þá gagnrýni að við þær aðstæður sem uppi voru hefði átt að gæta betur að því hvernig greiðslur voru framkvæmdar, hverjir tóku við þeim og á hvaða grundvelli, hverjir höfðu heimildir til að gefa fyrirmæli um þær og hvert þær skyldu berast. Einnig er ljóst að samningar á bak við greiðslurnar hefðu átt að vera nákvæmir og formlegir.
Þá er það niðurstaða skýrslunnar að fyrrverandi framkvæmdastjóri yfir félögunum í Namibíu hafi tekið út verulegar fjárhæðir í reiðufé af reikningum félaganna, án nokkurra eða viðhlítandi skýringa. Margt bendir til þess að peningaúttektirnar hafi verið notaðar með óréttmætum hætti. Samherji vekur athygli á því að fyrir liggur viðurkenning framkvæmdastjórans fyrrverandi á þessari háttsemi og að því er virðist margs konar annarri brotastarfsemi á hans vegum þar sem félögum Samherja var beitt.
V.
Um viðskiptin við Namgomar Namibia:
1.
Á árunum 2014-2019 stunduðu félög tengd Samherja einnig veiðar í Namibíu á grundvelli aflaheimilda sem úthlutað var af stjórnvöldum til einkafyrirtækisins Namgomar Pesca (Pty) Ltd. (Namgomar Namibia). Rannsóknin leiddi í ljós að opinberir embættismenn bæði í Namibíu og Angóla, þar með talið þáverandi sjávarútvegsráðherrar beggja landa, störfuðu með öðrum einstaklingum sem voru þeim tengdir í Namibíu og Angóla, að stofnun félagsins Namgomar Namibia. Að baki því félagi voru tvö félög, eitt frá Angóla og annað frá Namibíu. Þessir einstaklingar bjuggu þannig um hnútana að Namgomar Namibia fengi úthlutað aflaheimildum sem byggðist á tvíhliða fiskveiðisamningi milli ríkjanna. Félög tengd Samherja leigðu síðan veiðirétt á grundvelli þessara aflaheimilda. Þeir einstaklingar sem voru í aðstöðu til að úthluta aflaheimildunum og nýtingarrétti vegna þessara sömu heimilda virðast hafa haft af því persónulega hagsmuni sem raunverulegir eigendur Namgomar Namibia. Engar vísbendingar eru um að stjórnendur Samherja hafi vitað um þessa uppbyggingu raunverulegs eignarhalds á félaginu Namgomar Namibia.
2.
Samherji tekur fram að eftir að fyrrverandi framkvæmdastjóra dótturfélaga Samherja hafði verið sagt upp störfum kom í ljós að hann hafði tekið þátt í að greiðslur fyrir veiðiréttindi höfðu verið greiddar beint til ofangreindra aðila eða annarra sem voru þeim nátengdir. Dæmi um slíka tilhögun greiðslna fyrir veiðiréttindi á grundvelli aflaheimilda Namgomar Namibia voru greiðslur til félagsins Tundavala Invest Ltd. sem skráð er í Dúbaí. Rannsóknin leiddi í ljós að starfsmenn Samherja og dótturfélaga, aðrir en fyrrverandi framkvæmdastjóri dótturfélaganna, stóðu í þeirri trú að stærsti hluti af þeim greiðslum, sem ekki fóru beint til Namgomar Namibia, hafi verið fyrir aflaheimildir og að hluti greiðslnanna hafi verið vegna ráðgjafar. Það er skilningur Samherja að eins og greiðslurnar horfðu við þessum starfsmönnum verður lagalegt réttmæti þeirra ekki dregið í efa.
Þá hafnar Samherji órökstuddum fullyrðingum um að tvíhliða samningur milli Namibíu og Angóla hafi verið gerður að undirlagi Samherja eða dótturfélaga, til þess að afla þeim ótilhlýðilegra hlunninda. Samningur landanna átti sér langan aðdraganda og var byggður á gagnkvæmum hagsmunum þeirra og áralangri vinnu.
3.
Samherji vill benda á að eftir að nýir stjórnendur höfðu tekið við störfum hjá félögum Samherja í Namibíu varð ljóst að óreiða ríkti um fjölmargt í rekstrinum, þar á meðal um þessar greiðslur fyrir veiðiréttindi. Til dæmis lágu ekki fyrir formleg gögn eða réttur frágangur á mörgum greiðslum og tók það því nýja stjórnendur langan tíma að átta sig á þeim samningum sem gerðir höfðu verið í tíð fyrrverandi framkvæmdastjóra. Þegar nýjum stjórnendum varð ljóst hvernig þeim samningum var háttað var samið um að öllum veiðiréttargreiðslum sem farið höfðu til Dúbaí yrði hætt og lauk þeim í ársbyrjun 2017. Fjórar greiðslur vegna ráðgjafaþóknana voru greiddar á árinu 2018 og í ársbyrjun 2019.
VI.
Um viðskiptin við Fischor:
1.
Namibíska ríkisútgerðin Fischor hélt utan um aflaheimildir sem stjórnvöld afhentu Fischor sem aftur úthlutaði þeim til þriðja aðila gegn gjaldi.
Á því tímabili sem að framan greinir (2014-2019) stunduðu félög tengd Samherja ásamt mörgum öðrum í Namibíu veiðar á grundvelli slíkra aflaheimilda frá Fishcor. Rannsóknin leiddi í ljós að hluti greiðslna vegna samninga við Fishcor var greiddur inn á reikninga í eigu þriðja aðila í tengslum við svokallað Fischor-styrktarverkefni ríkisstjórnar Namibíu. Rannsóknin hefur leitt í ljós að þrátt fyrir fyrirmæli frá þar til bærum aðilum á vegum Fischor, hafi greiðslur fyrir veiðiheimildir, sem úthlutað hafði verið í styrktarverkefni ríkisstjórnarinnar, ekki alltaf verið studdar reikningum né haft beina tengingu við ákveðið styrktarverkefni stjórnvalda. Samherji áréttar að starfsmenn Samherjafélaganna drógu þessi fyrirmæli ekki í efa og greiddu samkvæmt þeim í góðri trú um réttmæti þeirra.
2.
Rannsóknin leiddi í ljós að greiðslur til ráðgjafanna, til Namgomar Namibia, Tundavala Invest og Fishcor voru almennt óljósar og oft á tíðum inntar af hendi án undirliggjandi samnings milli aðila. Þessi skortur á formlegum samningum, og ófullnægjandi fyrirmæli sem farið var eftir, um greiðslur til fyrirtækja og inn á reikninga sem voru ekki aðilar að viðkomandi samningum, olli óreiðu og ruglingi hjá starfsmönnum félaga sem tengdust Samherja auk þess sem það var til þess fallið að tefla orðspori félaganna í tvísýnu og auka áhættu rekstri þeirra.
3.
Það fyrirkomulag á viðskiptum sem hér hefur verið lýst var sett á laggirnar að frumkvæði og undir sjálfstæðri stjórn fyrrverandi framkvæmdastjóra yfir starfsemi Samherja í Namibíu. Tölvupóstsamskipti í kjölfar starfsloka hans árið 2016, sem voru hluti af rannsókninni, varpa ljósi á óásættanlega háttsemi hans á meðan hann bar ábyrgð á rekstrinum. Þá lýsa þessi gögn ringulreið meðal starfsfólks Samherja þegar það, eftir brotthvarf fyrrverandi framkvæmdastjóra, reyndi að ná utan um starfsemina sem var ruglingsleg og sumpart með öllu óljós.
Samherji bendir á að smám saman hafi starfsmönnum tekist að ná tökum á starfseminni í Namibíu, skilja og bæta úr því sem miður fór og að lokum leggja hana niður. Það er hins vegar ljóst að þá starfshætti, sem hér hafa verið raktir, hefði átt að stöðva mun fyrr. Þeir voru því miður látnir viðgangast allt of lengi.
Samherji áréttar að ekki verður séð að aðrir starfsmenn en framkvæmdastjórinn fyrrverandi hafi bakað sér saknæma ábyrgð í störfum sínum.
4.
Þar sem verulegur hluti af niðurstöðum skýrslu Wikborg Rein snýr að viðskiptaháttum sem gáfu færi á misnotkun, vegna veikleika í regluvörslu og innra stjórnskipulagi í Namibíu, hefur stjórn Samherja nú þegar tekið upp hlítingarkerfi sem felur í sér viðamiklar og endurbættar reglur um stjórnarhætti og regluvörslu. Þetta felur t.d. í sér eftirlitskerfi utanaðkomandi aðila með áhættumiðaðri athugun á milliliðum og öðrum þriðju aðilum. Heildarmarkmið þessara aðgerða á sviði stjórnarhátta og regluvörslu er að vernda Samherjasamstæðuna fyrir hvers kyns misgjörðum af hálfu einstaklinga í framtíðinni.
VII.
Mistök í Færeyjum
Í ljós hefur komið að mistök voru gerð í rekstri okkar sem tengdust alþjóðlegri skipaskrá sem haldin er í Færeyjum. Ekki liggur enn fyrir af neinni nákvæmni hver þau mistök eru en Samherji hefur greitt tryggingarfjárhæð sem verður til staðar þegar niðurstaða er fengin. Við viljum leiðrétta þau mistök sem þarna voru gerð og biðjast velvirðingar á þeim. Vonandi fæst nánari niðurstaða í þessi mál fljótt og greiðlega.
Samherji biðst afsökunar
„Það er eindregin afstaða mín og Samherja að engin refsiverð brot hafi verið framin í Namibíu af hálfu fyrirtækja á okkar vegum eða starfsmanna þeirra ef undan er skilin sú háttsemi sem fyrrverandi framkvæmdastjóri hefur beinlínis játað og viðurkennt. Engu að síður ber ég sem æðsti stjórnandi Samherja ábyrgð á því að hafa látið þau vinnubrögð, sem þar voru viðhöfð, viðgangast. Hefur það valdið uppnámi hjá starfsfólki okkar, vinum, fjölskyldum, samstarfsaðilum, viðskiptavinum og víðar í samfélaginu. Mér þykir mjög leitt að svo hafi farið og bið ég alla þá sem hlut eiga að máli, einlæglega afsökunar á mistökum okkar, bæði persónulega og fyrir hönd félagsins. Nú reynir á að tryggja að ekkert þessu líkt endurtaki sig, við munum sannarlega kappkosta að svo verði,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja hf.