Yfirstjórn Seðlabankans kemur fyrir þingnefnd á miðvikudag

Opinn fundur verður haldinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd nú á miðvikudag, þar sem yfirstjórn Seðlabanka Íslands, mun sitja fyrir svörum. Fundurinn átti að fara fram sl. fimmtudag en var frestað með skömmum fyrirvara, þar sem þann dag urðu breytingar á ráðherraskipan ríkisstjórnarinnar.

Umfjöllunarefni fundarins er lög um gjaldeyrismál og stjórnsýsla Seðlabanka Íslands við framkvæmd gjaldeyriseftirlits. Fyrir liggur hörð gagnrýni frá Umboðsmanni Alþingis á stjórnsýslu Seðlabankans í svonefndu Samherjamáli og sömuleiðis greinargerð bankaráðs Seðlabankans til forsætisráðherra.
 
Fundurinn verður haldinn í húsnæði nefndasviðs Alþingis í Austurstræti 8-10 og verður opinn fulltrúum fjölmiðla og almenningi meðan húsrúm leyfir. Gestir fundarins verða Már Guðmundsson seðlabankastjóri, Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs, og Rannveig Júníusdóttir, framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands.

Athygli vekur að formaður bankaráðsins mun hitta nefndina sér, en ekki ásamt þeim Má og Rannveigu.

Bein útsending verður frá fundinum á vef Alþingis og á sjónvarpsrás Alþingis á dreifikerfum Símans og Vodafone. Að loknum fundi má nálgast upptöku af fundinum hér.

Fundurinn verður haldinn samkvæmt reglum um opna fundi fastanefnda Alþingis.