4 dagar til kosninga: Vinsæll forsætisráðherra í óvinsælum flokki

Eins og fram hefur komið undanfarna daga, telur Viljinn niður dagana fram að kjördegi með tíu punktum um það helsta sem athygli vekur í kosningabaráttunni. Við þökkum frábærar viðtökur við þessum pistlum!

1. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna og oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi, saup greinilega hveljur yfir skoðanakönnun Gallup sem RÚV birti í gærkvöldi. Þar sást að fylgi flokks forsætisráðherrans er á hraðri niðurleið. „Skila­boðin eru skýr, fylgið fer úr 17% í 10% og því ljóst að vilji er til þess að aðrir taki við kefl­inu.“ sagði Bjarkey í færslu á fésbókinni sem síðar var fjarlægð. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra viðurkenndi í samtali við RÚV í dag að hún væri meðal þeirra sem gert hefði athugasemd við færslu Bjarkeyjar, enda væri þetta ekki stefna flokksins. „Við erum reiðubúin að mynda ríkisstjórn um þau málefni sem við setjum á oddinn,“ bætti hún við.

2. Katrín er eldri en tvævetur í pólitik og útilokar semsé hvorki áframhaldi samstarf ríkisstjórnarflokkanna né vinstri stjórn. En vandi hennar er ærin. Flokkur forsætisráðherrans er í ákveðinni tilvistarkreppu eftir fjögurra ára sambúð með erkióvininum og þótt hún mælist jafnan langvinsælasti stjórnmálamaður þjóðarinnar er hún formaður í giska óvinsælum flokki. Það er bara staðreynd. Og formaður sem tapar nálægt helmingi kjörfylgis flokksins síns getur tæpast krafist þess án gildra raka, að verða áfram forsætisráðherra eins og ekkert hafi í skorist. Sýnir þetta enn og aftur hvers konar mistök það voru hjá vinstra fólki að sameinast ekki fremur en sundrast í marga flokka. Þá væri Katrín leiðtogi stórrar breiðfylkingar og landslagið allt annað.

3. Sjálfstæðisflokkurinn á mestu málefnalegu samleið með Framsóknarflokknum og Miðflokknum, ef litið er til svara frambjóðenda flokksins í kosningaprófi RÚV. Framsóknarflokkurinn á hins vegar mesta samleið með Miðflokknum og Viðreisn.

4. Annars er könnun Gallup um fylgi í Suðurkjördæmi giska merkileg. Þar kemur fram að pólitík á landsbyggðinni er oft æði frábrugðin því sem ætla mætti af fjölmiðlaumfjöllun sem oftast er ættuð af höfuðborgarsvæðinu. „Niðurstöðurnar í Suðurkjördæmi eru heldur óhefðbundnar. Þannig mælist Framsókn aðeins með einn kjördæmakjörinn mann í kjördæmi formannsins Sigurðar Inga Jóhannssonar þótt mjög litlu muni að eini þingmaður VG færist yfir til Framsóknar. En það er gott gengi framboða utan fjórflokksins sem vekur einnig athygli. Flokkur fólksins, Miðflokkurinn og Sósíalistaflokkurinn mælast öll með í kringum 10 prósenta fylgi og fengju samkvæmt þessu kjördæmakjörinn þingmann. Samfylkingin mælist hins vegar einungis með 6,8 prósent í kjördæminu og engan þingmann og VG rétt nær inn þingmanni með tæplega 8 prósent,“ segir í frétt RÚV.

5. Kjarninn segir í nýrri og uppfærðri kosningaspá að tveir stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn, mælist nú með sitt lægsta fylgi í kosningaspánni frá því að hún var keyrð fyrst í vor. Framsókn sé hins vegar vel yfir kjörfylgi og erfitt að sjá að hægt sé að mynda ríkisstjórn án þátttöku Framsóknarflokksins. Kjarninn segir líkurnar á að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur haldi velli hafi verið yfir 60 prósent í lok síðasta mánaðar, en séu nú 31% og virðist fara hratt lækkandi.

6. Í frétt Kjarnans segir ennfremur, að sú ríkisstjórn sem sé sennilegust eins og er, „að teknu tilliti til útilokunar sumra flokka á samstarfi með öðrum og raunsæju mati á að ekki sé gerlegur samstarfsgrundvöllur vegna persónulegra aðstæðna hjá ákveðnum flokkum“, eins og það er orðað kurteislega að sumir muni aldrei vilja með sumum, er ríkisstjórn Vinstri grænna, Pírata, Samfylkingar og Framsóknarflokks, eða 55 prósent. „Skammt á eftir kemur ríkisstjórn fjögurra miðjuflokka: Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar. Líkurnar á því að þeir flokkar nái meirihluta, eru nú 52 prósent og hafa aukist í mánuðinum. Reykjavíkurmódelið svokallaða mælist svo með 41 prósent líkur á því að verða að veruleika,“ segir þar ennfremur.

7. DV hefur grafið upp leiðara Fréttablaðsins frá árinu 2004, þar sem maður að nafni Gunnar Smári Egilsson hvetur til aukins einkarekstrar í heilbrigðiskerfinu og vísar til góðrar reynslu af einkavæðingu bankanna. Gunnar Smári, sem nú er orðinn leiðtogi Sósíalista, var spurður um þessi ummæli í þættinum Forystusætinu á RÚV í gærkvöldi og mundi þá ekki þeim, en viðurkenndi að hafa breytt um skoðun á mörgu því sem hann hefði skrifað um í ótal pistlum og blaðagreinum á undanförnum árum.

8. Annars er bleik brugðið þegar Mannlíf segir frá því að Gunnar Smári sé brjálaður út í Stundina fyrir fréttaflutning af flokknum og stefnumálum hans. „Hvað er eiginlega með þetta blað? Er það að launa einhverjum styrkina sem það fékk, vill það standa með elíuflokkunum og skammast í þeim flokkum sem ekki hafa lýst yfir ánægju með fjárstuðning til eigenda Stundarinnar?“ Fróðlegt væri að hinn reyndi fjölmiðlamaður Gunnar Smári skýri nánar út hvað hann á við um styrktaraðila Stundarinnar.

9. Sjálfstæðismenn tala nú eins og þeir hafi gefið upp alla von á að stjórnin haldi velli. Vilhjálmur Árnason, þingmaður flokksins í Suðurkjördæmi, vænir umhverfisráðherra Vinstri grænna um lögbrot og siðleysi í færslu sem verður að teljast til mikilla tíðinda. Og Brynjar Níelsson rifjar upp á fésbókinni gamalt kosningaslagorð sem hann telur það besta í sögunni: „Besta slagorðið í íslenskri pólitík fyrr og síðar, Varist vinstri slysin, varð ekki til úr engu árið 1974. Skilin voru skýr milli þeirra þjóða sem fóru til vinstri eftir seinna stríðið og hinna þegar kemur að velferð almennings og framþróun þjóðanna. Þá hafði verið vinstri stjórn á Íslandi frá 1971-74 þegar verðbólgan fór alveg úr böndunum. Ég veit ekki til þess að hagur nokkur manns hafi batnað í tíð vinstri stjórna á Íslandi,“ segir hann.

10. Píratar hafa sett skilyrði um samþykkt nýrrar stjórnarskrár fyrir þátttöku sinni í ríkisstjórn eftir kosningar. Þar sem ljóst er að fæstir aðrir flokkar geti gengið að slíku skilyrði, má heita að þar með hafi flokkurinn útilokað sig frá myndun vinstri stjórnar og að hugmyndir um Reykjavíkurmódelið á landsvísu hafi verið drepnar í fæðingu.

En það eru aðeins fjórir dagar til kosninga og enn getur ýmislegt gerst. Meira á morgun. (Ábendingar um áhugaverða punkta eða annað sem athygli vekur má senda á ritstjórn Viljans: viljinn@viljinn.is).