6 milljarða ákvörðunin sem ekki var tekin – kaupum allt fyrir alla!

Eftir Bergþór Ólason:

Bóluefnaklúður Evrópusambandsins er fólki hugleikið og enn frekar hvernig á því stendur að við Íslendingar séum fastir í því „samstarfi“.  Veruleg óvissa virðist jafnframt um hvort okkur séu allar aðrar bjargir bannaðar. 

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, svaraði því til þann 21.janúar, spurður um afstöðu til þess að Íslendingar séu í samfloti við ESB hvað öflun bóluefna varðar að:

„Í raun og veru stöndum við frammi fyrir spurningunni um það hvort það hefði hreinlega verið ábyrgt af íslenskum stjórnvöldum að fella sig ekki við það samkomulag sem þarna var undirliggjandi, að þetta væri dálítið allir fyrir einn og einn fyrir alla, og ef menn vildu freista gæfunnar einir og sér gagnvart hverjum og einum þeim framleiðanda sem Evrópusambandið var í samtali við, þá myndu þeir ekki geta notið góðs af heildarsamningi Evrópusambandsins við þá hina sömu. Það hefði verið mjög djörf ákvörðun. Hún hefði t.d. getað leitt til þess að við hefðum náð samningi við einhvern einn þeirra sem hefði síðan ekki verið sá sem var fyrstur á markað með lyfið. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við skoðum þetta í því samhengi.“

Vörn ráðherra fyrir samstarfinu við ESB kom nokkuð á óvart, en skoðum hver raunveruleg áhætta var við að nálgast málið sem sjálfstæð fullvalda þjóð. Hver var fjárhagslega áhættan? 

Hefðu stjórnvöld af myndarskap strax í upphafi gert samning við alla sex framleiðendurna sem ESB heldur nú á samningsumboðinu gagnvart, þá hefði heildarkostnaður af því orðið rúmir 6 milljarðar, það miðar við að kaupa fullan skammt fyrir alla landsmenn af hverjum og einum bóluefnaframleiðanda.

Þessi kostnaður tekur mið af  verðlista bóluefna sem belgíski forsætisráðherrann birti fyrir mistök. 6 milljarðar fyrir tvöfaldan bóluefnaskammt fyrir alla landsmenn*, frá öllum framleiðendum ESB samningsins og síðan hefði komið í ljós hver eða hverjir þeirra skiluðu sér fyrstir í mark.  Umframbóluefni yrði síðan ráðstafað til svæða/þjóða sem væru í verri stöðu en við.

6 milljarðar kunna að hljóma sem há tala, en á meðan ríkissjóður tapar heilum milljarði á dag,  þúsund milljónum, vegna COVID aðgerða og áhrifa þeim tengdum þá er hún það ekki.  Var þessi möguleiki skoðaður? Var beinlínis tekin ákvörðun um að gera þetta ekki svona?

Það er margt annað sem er óljóst í málum tengdum bólusetningu og öflun bóluefna.  Er okkur bannað samkvæmt samningnum við ESB að ræða við aðra framleiðendur og kaupa af þeim bóluefni?  Annar skilningur er í raun útilokaður sé hlustað á orð sóttvarnarlæknis. Eða er okkur slíkt heimilt? En það virðist skilningur fjármálaráðherra.  Annar hvor hefur rangt fyrir sér.  Þó að við þingmenn fáum ekki að sjá samninga um bóluefnakaup, þá ætla ég að gefa mér að sóttvarnarlæknir og fjármálaráðherra hafi aðgang að samningunum og geti þá útskýrt fyrir okkur hinum hvor hefur rétt fyrir sér.

Komi á daginn að okkur séu aðrar bjargir bannaðar, þá væri ekki úr vegi að komast til botns í því hvort aðrar þjóðir séu undir sömu skilyrði settar.  Orð Angelu Merkle kanslara Þýskalands virðast ekki benda til þess að Þjóðverjar telji sig bundna af slíkum takmörkunum.

Höfundur er þingmaður Miðflokksins.

*til einföldunar er gert ráð fyrir kaupum á bóluefni fyrir alla landsmenn, líka fyrir þá sem ekki þurfa á bólusetningu að halda og miðað er við einfaldan skammt frá Janssen en tvöfaldan frá öðrum.