Aðgerðirnar svínvirka

Undarlegt er að Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sé undrandi á mikilli fjölgun smita meðal barna og ungmenna þrátt fyrir hertar sóttvarnaaðgerðir sem tóku gildi fyrir viku.

Aðgerðirnar snerta einmitt nær ekkert þann aldurshóp sem smitast mest nú. Ekki var farið að ráðum sóttvarnalæknis um seinkun skólastarfs eftir jólaleyfi og skýrt tekið fram að markmið stjórnvalda væri skýrt, það er að halda skólum opnum sama hvað.

Vel getur verið að sú stefna eigi fullan rétt á sér, en það þarf að minnsta kosti ekki að koma neinum á óvart að smit berist nú barna á millum eins og enginn sé morgundagurinn með tilheyrandi áhrifum á samfélagið allt og skólastarf. Það var algjörlega fyrirsjáanlegt og margbúið að vara við því.

Sérfræðingur í læknastétt, sem Viljinn ræddi við í dag, sagði að útbreiðslan meðal barna væri slík um þessar mundir, að í reynd mætti afnema allar takmarkanir varðandi fullorðna en einblína þess í stað á börnin til að ná smitum niður.

Meðan staðan er hins vegar þokkaleg á Landspítalanum og fáir veikjast alvarlega er hins vegar líklegast að veirunni verði leyft að gossa hressilega næstu vikur meðan hjarðónæmi byggist upp. Það virðist planið núna, þótt enginn þori að viðurkenna það opinberlega.