Stjórnendur Samherja hyggjast kæra Má Guðmundsson seðlabankastjóra og nokkra fleiri lykilstjórnendur bankans persónulega til Héraðssaksóknara fyrir brot í opinberu starfi, meðal annars rangar sakargiftir. Málið hefur lengi verið í undirbúningi, en með dómi Hæstaréttar í gær, þar sem málatilbúnaði Seðlabankans gegn Samherja var endanlega hafnað eftir margra ára rannsókn, ákærumeðferð og deilur fyrir dómstólum, hefur verið ákveðið að láta til skarar skríða. Þetta hefur Viljinn eftir öruggum heimildum. Forstjóri Samherja segir Seðlabankastjóra eiga að víkja, enda sé hann á leið í fangelsi.
„Það er alveg ljóst að Már Guðmundsson hefur farið mjög illa með það vald sem honum hefur verið trúað fyrir,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja í samtali við Vísi í dag.
Dóm Hæstaréttar um stjórnvaldssekt Seðlabankans á hendur Samherja vegna brota á reglum um gjaldeyrismál er að finna hér, en með honum var staðfest niðurstaða Héraðsdóms.
Stjórnendur Samherja telja einsýnt að Már Guðmundsson hafi ásamt undirmönnum sínum gerst sekur um refsiverða háttsemi. Þeir hafi farið af stað með algjörlega vanreifað mál sem hafi verið stoppað ítrekað af ákæruvaldinu, en alltaf hafi því verið haldið áfram. Seðlabankastjóri hafi ítrekað rætt málið í fjölmiðlum, meðal annars aftur og aftur í sjónvarpsþættinum Eyjunni á Stöð 2, og sagt þar berum orðum að Samherji hefði aðeins sloppið við ákæru vegna tæknilegra vankanta við birtingu laga og reglugerða.
Stjórnendur Samherja sendu sérstakt erindi til bankaráðs Seðlabankans vegna viðtala við Seðlabankastjóra í Eyjunni á Stöð 2 og fóru fram á að hann hætti að tjá sig með þessum hætti um málið. Hann varð ekki við þeim tilmælum.
Ábyrgð bankaráðsins mikil
Bankaráð Seðlabankans hafi látið hjá líða að grípa inn í þegar ljóst var orðið fyrir löngu að ekkert stæði eftir í málatilbúnaði bankans, en það hafi ekki verið gert. Þess í stað hafi stjórnendur Seðlabankans neitað að horfast í augu við staðreyndir og lagt á 15 milljóna króna sekt vegna meintra brota á gjaldeyrisreglum og nú hafi sú sekt einnig verið felld niður með dómi Hæstaréttar.
