Aldrei tekist að gera mér graut úr prósentum

Landssamband eldri borgara og Félag eldri borgara eru greinilega ekki félagsskapur eldri borgara úr millistétt, segir Wilhelm Wessman eldri borgari og fv. hótelstjóri.

Hann kveðst draga þessa ályktun af viðtali við formann Landssambands eldri borgara í Ríkisútarpinu á dögunum, en þar hafi mikið verið rætt um prósentur og hópa en nær ekkert um áunnin réttindi fólks.

Wilhelm bendir á að á fundi Gráa hersins (baráttuhóps fyrir bættum kjörum eldri borgara) í yfirfullu Háskólabíói hafi verið lögð áhersla á áunnin réttindi, það er það sem fólk hefði greitt til sinna líeyrissjóða alla starfsævina.

Hann spyr hvar baráttuandinn sé hjá eldri borgurum?

Wilhelm Wessman, fv. hótelstjóri.

„Krafan á þessum fundum var 300,000 krónur í lámarkslaun og skerðingar burt. Nú er talað í anda stjórnmálamanna í prósentum. Ég sagði við Bjarna Ben þáverandi og núverandi fjármálaráðherra á fyrri fundinum að á fimmtíu ára starfsferli í hótel- og veitingamennsku hefði mér aldrei tekist að búa til graut úr prósentum. Hann skyldi ekki spurninguna. Það sama segi ég nú við formann LEB. Það á að tala um áunnin réttindi, ekki hópa og prósentur,“ segir Wilhelm ennfremur.

Hann segir að hafa verði hátt um það hvernig ríkið ræni lífeyrissjóðum landsmanna til að niðurgreiða bætur frá Tryggingastofnun ríkisins.

„Greiðsla frá TR er 240,000 þúsund á mánuði fyrir skatt. Þeir sem búa einir fá 60.000 fyrir skatt í heimilisuppbót, en þeir eru aðeins fjórðungur að okkur sem kominn eru á eftirlaun. Það er því alrangt að alhæfa að tekjur frá TR séu 300 þúsund á mánuði. Síðan skerðir TR greiðslur á móti greiðslum frá lífeyrissjóðum, ef einhverjar eru, um 45% á mánuði.

 Við öðlumst rétt til greiðslu frá TR með því að greiða skatt. Við öðlumst rétt til greiðslu úr lífeyrissjóðum með því að greiða í þá. 

Er eðlilegt að heildargreiðslur samanlagt frá TR og LVR séu 305 þúsund á mánuði eftir skatt? Ég hef greitt í LVR í 45 ár og skatt frá 1958 og þetta gengur alls ekki upp í mínum huga,“ segir Wilhelm sem áður hefur bent á að kerfið, eins og það er í dag, þýði í reynd að engu skipti hvort fólk hefur greitt samviskusamlega í lífeyrissjóð á starfsævinni eður ei.