Allir sammála um aukin útgjöld. Samtryggingin algjör

Jóhanna Sigurðardóttir fv. forsætisráðherra er gáttuð á áformum stjórnmálaflokkanna á þingi, undir forystu Steingríms J. Sigfússonar forseta, að stórfjölga aðstoðarmönnum flokkanna með tilheyrandi kostnaði.

„Aðstoðarmönnum ráðherra fjölgaði á þessu ári í 22 og kostaði sú viðbót ríkissjóð 153 milljónir. Nú á að fjölga aðstoðarmönnum þingflokka um 17 sem kostar yfir 200 milljónir króna,“ segir Jóhanna í færslu á fésbók í dag.

Hún vekur athygli á því hvernig staðið er að breytingunni:

„Enginn þingflokkur á Alþingi virðist vera á móti þessu. Allir sammála. Samtryggingin algjör. Þingflokkarnir geta þannig komið fleiri flokksmönnum sínum á jötuna, því ráðningamálin verða væntanlega í höndum hvers þingflokks fyrir sig.“

Hún telur þetta vera ótækt.

„Ef þingmenn vantar aðstoð við lagasmíð og önnur þingmál þá er einfaldasta leiðin að Alþingi fjölgi sérfræðingum á nefndasviði að undangenginni þarfagreiningu. Þannig yrði ráðningum hagað í samræmi við þörf á hverju málefnasviði fyrir sig og kynjasjónarmiða gætt í stað geðþótta þingflokkanna,“ segir Jóhanna.