Ásetningur Seðlabanka skýr: Málið fékk víst efnismeðferð, snýst ekki um lagaklúður

Í norskum sakamálalögum er ákvæði sem bannar stjórnvöldum að gefa í skyn sekt manna í málum þar sem annað hvort hefur verið sýknað eða mál látið falla niður. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja benti á þetta í viðtali við Sigmund Erni Rúnarsson á Hringbraut í gærkvöldi og gagnrýndi harðlega einbeitta viðleitni Seðlabankans og Más Guðmundssonar seðlabankastjóra til að gefa í skyn að hann og Samherji hefðu sloppið við ákæru og dóm fyrir gjaldeyrisbrot vegna tæknilegra mistaka við setningu laga og reglugerða.

Þorsteinn Már benti á að málið hefði verið vandlega rannsakað bæði hjá Sérstökum saksóknara og Embætti skattrannsóknarstjóra og látið niður falla eftir það. Seðlabankastjóri hafi lagt mikið á sig til að hylma yfir eigin mistök í málinu og ásetning og gefa þess í skyn að um lagaklúður væri að ræða. Þvert á móti hafi ekkert komið í ljós við rannsókn málsins miðað við skattalög og reglur.

Seðlabankinn hafi gert fjölmiðlum viðvart fyrirfram um húsleitir í Reykjavík og Akureyri, sendar hafi verið út fréttatilkynningar á ensku og íslensku um þær og kæru á hendur Þorsteini Má persónulega og allt málið hafi verið keyrt áfram af offorsi í þeirri viðleitni að valda fyrirtækinu eins miklum skaða og mögulegt væri.

Samkvæmt gögnum sem Viljinn hefur aflað sér, felldi Sérstakur saksóknari málið niður sem sakamál eftir tveggja ára skoðun. Gagnrýndi embætti hans vinnubrögð Seðlabankans og sagði vafa leika á því hvort forsendur bankans fyrir meintum brotum ættu við rök að styðjast. Framkvæmdi Sérstakur saksóknari því sjálfstæða athugun á starfsemi Samherja og tengdra aðila. Niðurstaðan var sú að Samherji hefði gætt þess af kostgæfni að skila gjaldeyri heim.

Aðrar ásakanir úr kæru Seðlabankans voru sendar til skattrannsóknarstjóra. Skattrannsóknarstjóri sá ekki ástæðu til að rannsaka málið frekar eftir athugun.