Þróun öryggismála, innrásarstríð Rússlands í Úkraínu, aukinn fælingar- og varnarviðbúnaður Atlantshafsbandalagsins og viðbúnaður á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum voru helstu umræðuefni fundar Bjarna Benediktssonar, utanríkisráðherra, og Rob Bauer, formanns hermálanefndar bandalagsins, sem fram fór í utanríkisráðuneytinu við Rauðarárstíg í gær.
Bauer, sem er Hollendingur, var áður herráðsforingi (Chief of Defence) í heimalandinu. Hann er nú í þriðju heimsókn sinni til Íslands, en hann hélt erindi á Hringborði norðurslóða (Arctic Circle) ráðstefnunni, sem lauk um helgina.
Bauer hefur gegnt formannsembættinu í hermálanefnd NATO síðan árið 2021.