BERUFSVERBOT

Eftir Guðbjörn Guðbjörnsson:

Allt frá sameiningu þýsku ríkjanna í lauslegt ríkjasamband undir keisaranum í byrjun 19. aldar, hefur hið svokallaða Berufsverbot tíðkast. Skipti þá engu hvort um var að ræða fólk á vinstri vængnum, demókrata, repúblikana eða sósíalista; allir andstæðingar keisarans voru ofsóttir með því að reka þá úr vinnu og ofsækja vegna pólitískra skoðana þeirra.

Segja má þetta hafi byrjað árið 1819 með Karlsbad samþykktunum (þ. Karlsbader Beschlüsse) og héldu áfram 1849 og 1878 með hrottalegri kúgun stjórnmálaafla, „intelektúela“ og stjórnmálaafla, en í kjölfarið komu síðan hin svokölluðu antí-sósíalista lög fram gegn sósíaldemókrötum, sósíalistum og kommúnistum.

Árið 1933 settu Nasistar á umdeild lög sem kölluðust Atvinnu- embættismannalögin (þ. Berufsbeamtengesetz). Eftir það var Gyðingum og ýmsum listamönnum, pólitískum andstæðingum Nasista auk margra annarra hópa fólks bannað að vinna við ýmis störf, t.d. að vera lögreglumenn, tollverðir eða kennarar við barnaskóla upp í háskóla. Þessum lögum var fylgt strangt eftir þar til ekki var nema nasista að finna í öllum stöðum hjá hinu opinbera, sem létti nasistum eftirleikinn, þ.e. að leggja Þýskaland og svínbeygja niður alla mótstöðu.

Öfgamanna-tilskipunin

Þann 28. janúar 1972 setti lýðræðislega kjörin ríkisstjórn Sambandslýðveldisins Þýskalands lög er kölluðust Öfgamanna-tilskipunin (þ. Radikalenerlass) Samkvæmt þessari tilskipun var þeim, sem töldust vera meðlimir í öfgasamtökum, bannað að vera ríkisstarfsmenn eða öllu heldur embættismenn (þ. Beamte), en mikill fjöldi þýskra ríkisstarfsmanna, t.d. eru kennarar þar að hluta til embættismenn, en einnig lögreglan, tollgæslan og fangaverðir líkt og hér á landi. Þetta voru viðbrögð við hryðjuverkum Rauðu herdeildarinnar.

Guðbjörn Guðbjörnsson stjórnsýslufræðingur.

Þetta var síðan kallað „Berufsverbot“ af þeim sem voru andsnúnir slíku banni, en andstaðan var ekki einskorðuð við vinstri menn, heldur fannst mörgum Þjóðverjum þetta óeðlilegt, ekki síst vegna þess að Nasistar höfðu, líkt og fyrr segir, notað þessa aðferð til að bola lýðræðissinnuðu fólki úr störfum hjá ríkinu, en koma þar fyrir Nasistum í staðinn. Þetta fólk upplifði slíkt inngrip sem alvarlega árás á atvinnufrelsið í Þýskalandi, sem tryggt er í Sjórnarskrá sambandslýðveldisins. Lögfræðingar nota þetta heiti þó ekki, þar sem lögin sem slík banna ekki þessar starfsgreinar.

Skoðanir sem passa ekki

Þessum lögum var beitt allt til ársins 1979, þótt það hafi nú ekki verið oft eða samræmt, vegna þess hve umdeilanleg lögin voru. Í Bæjaralandi er tilskipunin víst enn í gildi. Það verður að teljast ein mesta skerðing á frelsi fólks, sem til er þegar tjáningarfrelsið er skert á þann hátt að fólk þarf að vera hrætt um að missa vinnuna í kjölfar þess að vinnuveitandi eða eitthvert annað opinbert vald kemst að því að „skoðanir viðkomandi“ passa ekki við skoðanir valdhafa. Í þessu tilfelli var um vinstri sinnað fólk að ræða á borð þá sem núna kjósa VG eða Sósíalistaflokkinn, rótækara þurfti fólk ekki að vera.

Fimmtudaginn 15. nóvember 2018 dæmdi Hæstiréttur Snorra Óskarssyni þrjár og hálfa milljónir í bætur vegna ólöglegrar uppsagnar, ekki ósvipaðri þeirri sem Sósíaldemókratar og Kristilegir demókratar stunduðu við sósíalista og kommúnista upp úr 1970. Alveg sama hvað fólki finnst um skoðanir Snorra í Betel – Guð veit að ég er þeim ekki sammála – þá voru lög brotin á þessum manni og hann sætti ofsóknum í Akureyrarbæ af hálfu vinstri manna, þar sem lög voru brotin á honum árið 2012. Af slíku hátterni er mikil skömm. 

Félagslega rétttrúnaðarstefnan

Ætli pólitískar ofsóknir á hendur fólki sem ekki fylgir „félagslegu rétttrúnaðarstefnunni“ séu næstar á dagskrá eða eru þær kannski nú þegar hafnar, sbr. uppsögn Kristins Sigurjónssonar, fyrrverandi lektors á tækni- og verkfræðibraut Háskólans í Reykjavík. Ummæli hans voru einnig í besta falli „óheppileg, ósmekkleg eða klaufaleg“ – eins og það er jafnan orðað – en að því ég held ekki ólögleg. Engu að síður var manninum þröngvað til að segja upp starfi sínu. Havaríið hjá Orku náttúrunnar varð á endanum slíkt að enginn veit í raun hvernig það mál endaði og hverjir voru vonda og góða fólkið. Yfirleitt er það nú á hreinu.

Eitt er víst að í dag eru menn – aðallega miðaldra karlmenn – teknir af lífi án dóms og laga nær daglega. Ekki virðist þurfa til þess rannsókn, ákæru eða dóm, því dómstóll götunnar virðist vera orðinn áhrifameiri en það opinbera kerfi, sem við höfum þó komið upp til að sjá um slík mál. Við sjáum einnig að opinberar eða hálf-opinberar stofnanir hjá ríki og bæjum virðast telja sig tilknúna, skylt og í rétti við að rannsaka mál, sem eru mjög viðkvæm og snerta æru fjölda fólks, „ákæra“ í slíkum málum og „dæma“. Jafnvel áður en þessi fyrirtæki og stofnanir hafa kveðið upp sinn úrskurð, er þó búið að gefa dómstóli götunnar tækifæri til að draga fólk niður í skítinn án þess að það geti nokkra vörn sér veitt. 

Ég segir eins og kommarnir upp úr 1970 í Þýskalandi:

Sei keine Duckmaus – Weg mit den Berufsverboten!

Höfundur er stjórnsýslufræðingur, MPA.