„Nú fer víða á samfélagsmiðlum stutt brot úr frétt RÚV í gærkvöldi. Í fréttinni bendi ég meðal annars á að Ísrael verði að beita meðalhófi í sjálfsvörn sinni, eðli málsins samkvæmt. Sá hluti er hins vegar víða klipptur út einn og sér og settur í það samhengi að ég telji meðalhóf felast í miklu mannfalli meðal saklausra borgara, jafnvel barna. Þjóðarmorð eru beinlínis nefnd í því samhengi.
Þess er gætt að birta ekki fréttina í heild, enda sýnir hún allt aðra mynd. Þar kemur fram að við getum ekki staðið með Ísraelsmönnum í sjálfsvarnarrétti sínum þegar gengið er of langt. Að allar vísbendingar um lögbrot verði að rannsaka og hafa afleiðingar. Að þegar börn og aðrir saklausir verða í skotlínunni þá sé ákallið skýrt; átökin verði að stöðva,“ segir Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra á Facebook, en þar gagnrýnir hann Ríkisútvarpið fyrir að gefa villandi mynd af sjónarmiðum sínum og stuðla að frekari skautun umræðunnar.
„Það er ástæða til að hafa áhyggjur af skautun umræðunnar sem birtist skýrt í þessu máli. Annað hvort tekurðu undir ítrustu kröfur þeirra sem hæst hafa, hvoru megin borðsins sem er, eða ert svarinn andstæðingur þeirra. Engar málamiðlanir, enginn millivegur.
Þetta er sérstakt áhyggjuefni nú, þegar sjaldan hefur verið mikilvægara að standa saman um það sem mestu máli skiptir. Afstaða mín og ríkisstjórnarinnar hefur verið skýr í þeim efnum síðustu vikur;
Mannúðarhlé verður að gera á átökunum. Alþjóðalög skal virða án undantekninga og rannsaka ber allar vísbendingar um stríðsglæpi. Neyðarbirgðir og aðstoð verða að komast óhindrað inn á átakasvæðið. Íslensk stjórnvöld hafa tvöfaldað stuðning við mannúðaraðstoð á Gaza og munu áfram leggja sitt af mörkum,“ segir Bjarni og birtir sjálfur eigin klippu úr viðtalinu, „til að sporna gegn upplýsingaóreiðu“ og hvetur um leið fólk til að kynna sér „raunverulegt samhengi hlutanna“.