Bjarni, Geir og Davíð pólitískt ofsóttir út fyrir öll mörk

Björn Bjarnason fv. ráðherra var lengi aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins.

Allt sem andstæðingar Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, blása nú upp enn á ný um fjármálasviptingar fyrir hrun kom fram fyrir ári og flest af því hefur legið fyrir í nokkrum þingkosningum og þegar gengið hefur verið til formannskjörs í Sjálfstæðisflokknum þar sem Bjarni hefur notið mikils trausts.

Þetta segir Björn Bjarnason fv. ráðherra. Hann segir að umfjöllun Stundarinnar um viðskipti Bjarna fyrir grun bæti engu við og gagnrýnir að reynt sé að finna nýjan flöt á þessu margnota máli með því að bera það undir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í „von um að málefnasnauðir stjórnmálamenn og álitsgjafar geti rekið fleyg í samstarf stjórnarflokkanna og raskað stjórnmálalegum stöðugleika og jafnvægi sem af því leiðir,“ eins og hann orðar það.

Björn segir í pistli á heimasíðu sinni að  tveir fyrrverandi formenn Sjálfstæðisflokksins og einn núverandi hafi sætt pólitískum ofsóknum langt út fyrir öll sæmileg mörk vegna hrunsins.

„Lögum um Seðlabanka Íslands var breytt og þrír bankastjórar settir af til koma Davíð Oddssyni úr bankanum. Landsdómur var kallaður saman, meirihluta þingmanna sem kærði Geir H. Haarde til skammar. Óhróðurinn um Bjarna Benediktsson er af þessum meiði. Hann er langt út fyrir skynsamleg mörk. Stjórnmálamennirnir að baki honum ættu að gæta sóma síns. Hælbíta er hins vegar jafnan erfitt að hemja,“ segir Björn Bjarnason.

Í stuttu máli: Björn Bjarnason segir ekkert nýtt koma fram í viðamikilli umfjöllunar Stundarinnar um viðskipti Bjarna Benediktssonar við bankakerfið fyrir hrun.