Bjarni segir af sér sem fjármálaráðherra: Ríkisstjórnarsamstarfið í algjöru uppnámi

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins hefur sagt af sér sem fjármála- og efnahagsráðherra eftir álit Umboðsmanns Alþingis í morgun um að hann hafi verið vanhæfur í sölunni á Íslandsbanka.

Tilkynnti hann þetta á blaðamannafundi nú rétt í þessu. Hann kveðst hafa „hreina samvisku“ í málinu, en sé „brugðið“ yfir niðurstöðu Umboðsmanns. Hann vill með þessari ákvörðun axla pólitíska ábyrgð og honum sé í reynd gert ókleift að starfa áfram sem ráðherra fjármála og standa að frekari sölu á eignarhlutum ríkisins eftir þessa niðurstöðu.

Bjarni vildi ekki segja hvort hann muni hætta sem formaður Sjálfstæðisflokksins eða taka við öðru ráðuneyti. Eðlileg næstu skref séu samtöl við samstarfsmenn í ríkisstjórn og innan flokksins.