Bretar ætla að byggja geimflugvöll og stytta flug til Ástralíu í 90 mínútur

Horft á hótel Jörð utan úr geimnum. Ljósmynd/NASA.

Bretland ætlar að verða fyrst í heimi til að opna „geimflugvelli“ – þaðan sem ferðamenn fljúga út í geim með geimflugvélum. Áætlaðar staðsetningar séu í Cornwall og Skosku hálöndunum. Frá þessu er sagt í breskum fjölmiðlum.

Stjórnvöld hafa lofað að byrja að skjóta gervihnöttum á sporbaug jarðar frá Bretlandi og hafa þegar undirritað samning við Virgin Orbit um að byggja nauðsynlega innviði. En nú hefur Breska geimferðastofnunin staðfest að áætlanir um að senda ferðamenn út í geim séu einnig á teikniborðinu. Gefið er í skyn að Virgin Galactic sé líklegt til að fá að verða fyrst til þess. Í geimnum muni ferðamenn eiga þess kost að upplifa þyngdarleysi og horfa á jörðina utan úr geimnum.

Breski geimfarinn Tim Peake segir „gríðarlega mikilvægt“ fyrir Bretland að vera leiðandi í geimflugi, þar sem það gæti stytt ferðatíma á milli London og Ástralíu niður í aðeins 90 mínútur, með því að fljúga vélunum rétt fyrir utan lofthjúpinn. „Fyrir Bretland að byggja fyrsta geimflugvöll Evrópu, að vera fyrst til að bjóða þá þjónustu vegna hagstæðs lagaumhverfis og innviða, það yrði magnað. Þetta eru spennandi tímar.“

Peake segir að geimferðamennska sé líkleg til að verða fyrir gagnrýni sem áhugamál hinna ríku, en þannig hafi það verið fyrir margt annað í upphafi, eins og t.d. flugferðir.

Virgin Galactic, í eigu Richard Branson, stefnir því á að fara aðrar leiðir en SpaceX sem er í eigu Elon Musk, sem vill senda fólk í geimflaugum út í geim.

Á heimasíðu Virgin Galactic, er haft eftir Branson:

„Hlið geimferðaiðnaðarins eru að opnast á 21. öldinni, sem mun veita öllum aðgang að geimnum – og breyta veröldinni til framtíðar.“

Richard Branson, eigandi Virgin fyrirtækjasamstæðunnar. Ljósmynd/Wikimedia.