Dagur B. telur minnihlutann óvægnari en áður, teknir upp ósiðir frá Alþingi

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri þar til á morgun./ mynd: Samfylkingin.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að núverandi minnihluti í borgarstjórn Reykjavíkur sé óvægnari en áður. Hann hafi vonast til að þeir ósiðir sem tíðkist á Alþingi, bærust ekki inn í Ráðhúsið.

Þetta kemur fram í viðtali við borgarstjóra í fríblaðinu Mannlífi sem kom út í dag. Dagur hefur verið í veikindaleyfi undanfarið, en er snúinn aftur til starfa. Spjótin hafa staðið á honum og borgarstjórnarmeirihlutanum út af ýmsum umdeildum málum, t.d. svonefndu Braggamáli og Orkuveitunni.

„Mér finnst vondur bragur á upphlaupum út af stóru og smáu. Það er nánast sama hvað er, það eru notuð alveg gríðarlega stór orð. Ég kveinka mér ekki undan því þegar þeim er beint að mér en mér finnst miklu verra þegar það er verið að hafa almennt verkafólk sem er að vinna hjá borginni að háði og spotti,“ segir Dagur í viðtalinu.

Mér finnst vondur bragur á upphlaupum út af stóru og smáu

Hann segist hafa óskað eftir ákveðinni tillitsemi í sumar vegna veikinda sinna og langflestir hafi orðið við þeirri beiðni.

„Það sem mér finnst standa upp úr er að ég mæti hvarvetna hlýju og stuðningi og nánast undantekningarlaust í pólitíkinni. Þær undantekningar sem þar eru finnst mér dæma sig sjálfar og ég ætla ekkert að bregðast við því,“ segir hann.

Viðtalið við borgarstjóra, eftir Magnús Geir Eyjólfsson, má lesa hér.