Þorsteinn Sæmundsson, fv. þingmaður Miðflokksins og áður Framsóknarflokksins, efast um að Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segi rétt frá því að Skatturinn hafi sent henni tilmæli um að auknar skattgreiðslur vegna kaupréttar sem hún naut sem aðalhagfræðingur Kviku. Kveðst hann hafa sinnt störfum innheimtumanns ríkissjóðs í áraraðir, en muni aldrei eftir tilmælum af því tagi sem Kristrún greini frá, aðeins endurákvörðunum um vangoldin gjöld.
„Því var fundinn nýr formaður Samfylkingar. Alvöru Pjattkrati meira að segja vinnandi í banka þar sem menn fá kauprétti bónusa og ég veit ekki hvað. Farið var hljótt með þær staðreyndir enda kom í ljós að nýi formaðurinn hafði alltíeinu dottið í lukkupottinn og dvalið þar góða stund. Tíumilljónkall hluturinn sem hún hafði keypt á þrjár milljónir með peningum úr kökukrúsinni seldist alltíeinu á hundrað milljónir. Hvernig átti einn aðalhagfræðingur banka að átta sig á verðmæti þessa hlutar í bankanum sem hún vann hjá? Ekki eins og hún væri innherji eða hvað? Þetta varð nokkuð feimnismál svo stórt að fjölmiðlar sögðu helst ekki frá því. En þar með var ekki öll sagan sögð aðalhagfræðingurinn klúðraði nefnilega skattframtalinu líka og taldi fram fjármagnstekjur af lottóvinningnum í lukkupottinum. Skatturinn brást kurteislega við og sendi formanninum tilmæli um að borga helmingi meira í skatt en hún hafði hugsað sér. Nú hefur greinarhöfundur verið innheimtumaður ríkissjóðs í áraraðir en man helst eftir eftirá ákvörðunum skattyfirvalda og eða greiðsluáskorunum vegna rangt greiddra skatta en aldrei tilmælum. Gaman væri að fá að sjá tilmælin í ljósi þess að allt skal vera uppi á borðum og opið öllum þó feimnin hafi yfirtekið fólk í þessu tilfelli,“ skrifar Þorsteinn í grein sem birtist á Vísi í dag.
Þar segir hann þó athyglisverðast að sjá umfjöllun fjölmiðla um þessar vendingar eða skort á umfjöllunum. „Þar ræður feimnin ríkjum annað en þegar jafnvel fjölskyldumeðlimir stjórnmálaforingja eiga í hlut. Þá er engu til sparað. RUV teppalagt með viðkomandi ,,frétt“. Fjögur fréttir sex fréttir sjónvarpsfréttir og Kastljós. Helga Vala kölluð út. Sama er að segja af netmiðlum nú. Þar eru birtar yfirlýsingar í tvídálki án túlkunar og búið. Svona getur feimnin leikið jafnvel harðsvíruðustu rannsóknarblaðamenn og konur. Pjattkratinn er þó búinn að gjalda Keisaranum það sem honum ber sem ber að fagna.“