Eitthvert skrýtnasta upphlaup síðari tíma

Gylfi Magnússon prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.

Umræðan og andstaðan við innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins hér á landi er eitthvert skrýtnasta upphlaup síðari tíma, segir Gylfi Magnússon dósent í hagfræði við Háskóla Íslands og fv. ráðherra.

Hörð andstaða er komin upp við innleiðingu orkupakkans, en til stendur að utanríkisráðherra leggi fram þingsályktun um málið eftir áramót og í framhaldinu komi frumvarp iðnaðarráðherra. Eins og Viljinn hefur skýrt frá, er mikill fyrirvari um málið innan Framsóknarflokks, harðar deilur um það innan Sjálfstæðisflokks og Miðflokkurinn leggst alfarið gegn því. Þá varaði Jón Baldvin Hannibalsson við innleiðingunni og telur hana geta þýtt stórhækkun raforkuverðs hér á landi.

Gylfi segir liggja fyrir að þessi orkupakki mun hafa sáralítil ef nokkur áhrif hér á landi af þeirri einföldu ástæðu að íslenski markaðurinn er ekki með neina tengingu við önnur lönd, þ.e. engan sæstreng.

„Það liggur líka fyrir að það er sjálfstæð ákvörðun hvort við viljum slíkan sæstreng og þessi orkupakki breytir engu um það. Síðan er kynt yndir miklum hræðsluáróðri um að þetta muni allt saman leiða til mikillar hækkunar orkuverðs á Íslandi – sem væri þó mikið hagsmunamál fyrir landsmenn því að Íslendingar hafa tekjur af því að selja útlendingum rafmagn,“ segir Gylfi.

„Það er einmitt ástæðan fyrir því að talsmönnum stóriðjunnar er mjög í nöp við sæstreng og hefur tekist að hafa veruleg áhrif á umræðuna um hann. Það er skýrt dæmi um að raddir sérhagsmuna heyrast almennt miklu skýrar en raddir almennings í hagsmunabaráttu,“ bætir hann við.