Ekki alltaf einfalt að blanda saman fólki af ólíkum uppruna og menningarbakgrunni

Í tilefni óeirða og mótmæla sem geisað hafa í Frakklandi og víðar að undanförnu, stakk verðlaunarithöfundurinn Einar Kárason, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, niður penna á fésbókinni og ræddi innflytjendur og aðlögun þeirra að samfélögum. Þetta er gömul umræða og ný, en hugleiðingar hans eru athyglisverðar. Hann segir upp koma þanka, „sem ekki má nefna án þess að jafnan fylgi stormur af ásökunum um mannhatur og jafnvel rasisma, að það sé ekki alltaf jafn einfalt fyrir stjórnvöld og menn halda að ætla að blanda saman fólki af ólíkum uppruna og menningarbakgrunni.“

Svo skrifar Einar:

„En þegar slíkt er nefnt þá er hvorki verið að sakast við fólkið sem kemur, frekar en hina sem fyrir eru. Því að þannig löguðu fylgja bara svo oft stærri vandamál heldur en bláeygir ráðamenn nenna að hugsa út í, og afleiðingar sem geta orðið illvígar.

Ég bjó í Danmörku í fjögur ár uppúr 1980 og þá var húmanísk og mannúðleg stefna danskra stjórnvalda, vina minna úr flokki sósíaldemókrata, sú að fólk sem þangað leitaði myndi einfaldlega flytjast inn í hverfi þeirra Dana sem fyrir voru, og aðlagast háttum heimamanna, verða á skömmum tíma eins og venjulegir Danir; önnur kynslóðin sem hefði svo alist upp í dönsku velferðar- og menntakerfi yrði bara eins og innfædd.

Þetta gerðist næstum aldrei, og það er reyndar alls ekki hægt að kenna bara aðkomufólkinu um það. Venjulegir Danir eiga nefnilega mjög erfitt að sætta sig við að fólk í þeirra nágrenni sé öðruvísi en þeir sjálfir; heimamennirnir með sinn einsleita – hómógen – og ágæta lifnaðarhátt eins og þeir sjálfir. Að fólk klæði sig öðruvísi, tali öðruvísi, eldi öðruvísi og kryddi, þetta líta þeir gjarnan á sem tilraun til móðgunar eða lítilsvirðingar við sjálfa sig. Um þetta mætti nefna ótal dæmi, en Danir eru til að mynda mjög uppteknir af því nesti sem fólk tekur með sér í skóla og á vinnustaði; „madpakke“ er stórt þar í landi. Það er horft á „madpakke“ næsta manns, og vorkennt eða öfundað, en verst verður allt ef fólk leyfir sér að fylgja ekki reglum. Danski höfundurinn Knud Romer átti þýska móður, hún var ekki úr fjarlægari stað en svo, en hann hefur lýst því í bíógrafískri skáldsögu að hann og systur hans hafi verið lögð í einelti alla sína skólatíð því að móðir þeirra skar rúgbrauðið, sem þau fóru með í nesti, ekki horn í horn eins og Danir, heldur þvert yfir. Íslenskir krakkar sem komu í danska barnaskóla upplifðu, er þau komu með þykkar fransbrauðsamlokur að íslenskum sið, að kennarinn horfði á og sagði svo hæðnislega yfir bekkinn: „Nåh, er det hestens födselsdag?“. En það var víst siður í DK að hestar fengju bita af brauðhleif á afmælisdaginn.

Það sem gerðist var að millistéttardanir horfðu upp á fasteignaverð í sínum hverfum hrapa ef þangað var komið aðkomufólk úr fjarlægum stöðum, og kom sér annað. Úr varð að til urðu hverfi heimamanna, og hinsvegar „útlendinga“ og spennan og tortryggnin þar á milli fór stigvaxandi. Staðan víða í Vestur-Evrópu er því sú að það ríkir fjandskapur og tortryggni á milli borgar- og bæjarhluta, milli fólks sem finnst stafa ógn að aðkomufólki, og svo hinsvegar hinum sem upplifa sig sem annars flokks, að vera ekki velkomin, heldur fyrirlitin. Það skapar ástand sem gerir tilveruna, og samfélögin, ekki bara verri, heldur á einhvern hátt óbærileg. Og hvar er þá greiðinn sem meiningin var að gera fólki?

Það er hlutverk þeirra sem ráða fyrir samfélögum að reyna að bæta lífsskilyrði fólks eftir bestu getu. Danskir sósíaldemókratar hafa horfst í augu við að sú stefna sem hefur verið fylgt er hvorki að gera heimafólki né aðkomumönnum stóran greiða, eða nokkurn greiða yfirleitt. Og án þess að fara í neitt sem kalla mætti rasíska tilburði eru þeir nú að reyna að aðlaga stefnu sína að þeirri staðreynd. Og stundum finnst mér að við hin eigum ekki að tala eins og við vitum miklu meira en þeir sjálfir um hvernig sé rétt að þeir reyni að greiða úr málum.“