Ekki lengur skynsamlegur grundvöllur fyrir samstarfi Sjálfstæðisflokks og VG

„Það er ekki lengur skynsamlegur grundvöllur fyrir samstarfi Sjálfstæðisflokksins og VG úr því sem komið er,“ segir Steinn Jónsson, prófessor emeritus í læknisfræði. Bendir hann á nokkur dæmi, máli sínu til stuðnings, til dæmis ummæli Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, um að hvalveiðibannið sé brot á stjórnarsáttmálanum en auk þess að öllum líkindum ólöglegt.

„Þá er augljóst að VG hefur staðið fyrir algerri kyrrstöðu í virkjanamálum undanfarin 8-10 ár og útlendingamálin eru kapítuli út af fyrir sig. Andstaða við auknar rannsóknarheimildir lögreglu er einnig rétt að nefna,“ nefnir Steinn ennfremur í svari við færslu Björns Bjarnasonar, fv. ráðherra, á fésbókinni, þar sem hann greinir stjórnmálaviðhorfið og nýlegt viðtal Þjóðmála við Bjarna Benediktsson.

Steinn segir aukinheldur að afstaða nokkurra þingmanna Vinstri grænna gagnvart Sjálfstæðisflokknum hafi birst í ummælum Jódísar Skúladóttur, þingmanns flokksins, á dögunum þegar Jón Gunnarsson lét af embætti dómsmálaráðherra, en þá sagði hún:

„Til að víkja athygli þjóðarinnar frá þessum darraðadansi og til að bregðast við fylgistapi, sameinast þau nú öll í að velta sér upp úr rasíska drullupollinum í von um að geta kroppað inn einhver prósent frá systurflokkum sínum í útlendingamálum, Miðflokki og Flokki fólksins.“

Steinn Jónsson bendir á að það sé hægt að mynda ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Miðflokksins. „Það er hægt að mynda stjórn D, B og M en það þarf hugrekki til að gera slíka hluti og þyrfti bæði samþykki D og B. Veit ekki hvort neitt getur verið verra en að sigla sofandi að feigðarósi í þessari ríkisstjórn.“