Athygli vakti í dag að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra var hvergi sjáanleg í Hörpu í morgun þegar svonefndur sjávarútvegsdagur fór fram, morgunfundur Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka atvinnulífsins og endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte.
Óvenjulegt er að sjávarútvegsráðherra sæki ekki slíkan fund heim, en ennþá undarlegra þykir fólki í sjávarútvegi að ráðherrann hafi þess í stað efnt sjálf til fundar á sama tíma um annað risamál, drög að nýrri stefnumótun lagareldis. Markmið stefnumótunarinnar ná til ársins 2040 og aðgerðaáætlun til ársins 2028.
Sjávarútvegsdagurinn var haldinn í tíunda sinn og ákveðinn og tímasettur með tæplega árs fyrirvara. Viðmælendur Viljans, sem þekkja vel til á bryggjunni, segja þetta enga tilviljun; Svandís hafi viljað senda skýr skilaboð um sjálfstæði sitt og áherslur.
Hér að neðan má sjá upptöku af sjávarútvegsdeginum 2023.