Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason, þingmenn Flokks fólksins, lýstu áhyggjum af fjármálum flokksins fyrir ríkisendurskoðanda síðasta haust og gerðu grein fyrir því að Inga Sæland, formaður flokksins, færi með fjárráð hans.
Þetta kemur fram í samtali Ólafs við Morgunblaðið í dag. Þingmennirnir voru báðir reknir úr Flokki fólksins, að tillögu Ingu Sælands, eftir að hið svonefnda Klaustursmál komst í hámæli í desember.
„Ég lét uppi við formanninn það sjónarmið að ég teldi ekki rétt að fjármál flokksins væru í höndum kjörinna fulltrúa. Þetta gerðum við strax báðir snemma í nóvember árið 2017 á þingflokksfundi, skömmu eftir að við vorum kjörin á þing,“ segir Ólafur og bendir á að þegar upp hafi komið ráðagerðir nokkru síðar um að ráða son hennar á skrifstofu flokksins, hafi þeir lýst þeirri skoðun sinni að það ætti ekki við.
Ólafur segir að þeir félagar hafi báðir haft miklar áhyggjur af þessum atriðum og nefnir að hann þekki ekki dæmi þess að stjórnmálaforingjar hafi með fjármál flokka sinna að gera.
„Ég yrði mjög hissa ef þetta væri þekkt í nokkrum flokki hér á landi, annars staðar á Norðurlöndunum eða í Evrópu. Ég hefði haldið að þetta væri viðurkennt sjónarmið. Ég tel að það sé líka viðurkennt sjónarmið að þeim sem fara með opinbert fé ber að sýna ýtrustu aðgát og fara að skýrum ákvæðum laga um þau efni, m.a. um verkaskiptingu. Stjórnmálaflokki og þeim sem hafa verið settir til starfa á hans vegum stafar mikil orðsporshætta af slíkri skipan mála eins og nú hefur verið staðfest að er uppi hjá Flokki fólksins,“ segir Ólafur í samtali við Morgunblaðið.