Kolbrún Baldursdóttir skrifar:
Eru hlutirnir eitthvað að lagast hjá Félagsbústöðum?
Málefni Félagsbústaða hafa verið ofarlega í umræðunni að undanförnu. Flokkur fólksins í borginni hefur frá vori fengið fjölmargar kvartanir af ýmsum toga frá notendum Félagsbústaða. Til að reyna að koma þeim augljósa vanda sem fyrirtækið glímir við áleiðis til meirihlutans hefur Flokkur fólksins lagt fram nokkrar tillögur til úrbóta. Fæstar þeirra hafa náð eyrum meirihlutans. Eins og kunnugt er hætti framkvæmdarstjórinn störfum þegar í ljós kom 330 milljóna króna framúrkeyrsla vegna Írabakka. Í kjölfarið var gefið í skyn að taka ætti til í þessu fyrirtæki, byrja að hlusta á þjónustuþegana og sýna þeim meiri virðingu í samskiptum. Enn eru þó að berast kvartanir. Nú hefur Flokkur fólksins lagt fram tvær aðrar tillögur um að borgarráð samþykki að fara þess á leit við stjórn Félagsbústaða að samdar verði sérstakar siðareglur varðandi samskipti starfsfólks Félagsbústaða Reykjavíkurborgar við leigutaka Félagsbústaða og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Siðareglur virðast ekki vera til hjá Félagsbústöðum eftir því sem næst er komist. Hin tillagan er að gerð verði Þjónustustefna Félagsbústaða með áherslu á notendamiðaða hönnun. Notendamiðuð hönnun felst í því að þjónustu skal hanna og skipuleggja út frá þörfum og sjónarhorni notenda hennar.
Siðareglur
Í siðareglum er öllu jafnan kveðið á um samskipti starfsfólks við þjónustuþega og trúnað varðandi þær upplýsingar sem fram koma hjá þjónustuþegum. Einnig er kveðið á um hlutverk starfsmanna og ábyrgð sem á þeim hvílir bæði formlega og eins óformlega, vegna væntinga þjónustuþega, varðandi þjónustu, viðhald, og annars sem upp kann að koma. Í siðareglum er gjarnan fjallað um hvernig starfsfólk kemur fram við þjónustuþega og hvert við annað. Hvernig er gegnsæi tryggt í rekstri? Siðareglur leiðbeina þegar siðferðileg álitamál koma upp í starfi. Siðareglur minna á að láta heiðarleika, virðingu og jafnrétti einkenna öll samskipti. Að öðru leyti hvað varðar innihald siðareglna má horfa til annarra siðareglna m.a. þeirra sem Reykjavíkurborg hefur sett sér svo og einstaka fyrirtæki á hennar vegum.
Þjónustustefna
Allar stofnanir og fyrirtæki borgarinnar sem og þau sem eru í eigu borgarinnar eiga að hafa skýra þjónustustefnu. Félagsbústaðir eru engin undantekning. Félagsbústaðir eiga að hafa skýra þjónustustefnu þar sem finna má upplýsingar um þjónustuna og hvers þjónustuþegar geta vænst hjá af fyrirtækinu. Markmið þjónustustefnu er að uppfylla hlutverk sitt og veita þjónustuþegum góða þjónustu.
Til þess að fylgja þessari stefnu eftir eiga stjórnendur og starfsmenn að leggja áherslu á að:
1 Sýna þjónustuþegum jákvætt viðmót, virðingu og kurteislega framkomu
2 Vera vingjarnleg og hjálpfús gagnvart þjónustuþegum Félagsbústaða
3 Þekkja hlutverk, stefnu og gildi Félagsbústaða
4 Sýna drifkraft í störfum sínum með frumkvæði, kjark og þor að leiðarljósi
5 Skapa traust þjónustuþega Félagsbústaða og sýna áreiðanleika og ábyrgð í verki.
6 Veita þjónustuþegum nauðsynlegar upplýsingar
7 Svara öllum fyrirspurnum og erindum hið fyrsta og leitast við að leysa mál, stór sem smá hjá þjónustuþegum.
Nákvæmlega þetta eiga Félagsbústaðir að gera og gera það vel.
Höfundur er borgarfulltrúi fyrir Flokk fólksins.