Er Viðreisn að rétta úr kútnum?

Skoðanakannanir eru fyrirferðamiklar þessa dagana og Stöð 2 birti í kvöld nýja könnun Maskínu á fylgi flokkanna. Þar staðfestist enn vandræðagangur ríkisstjórnarflokkanna sem engan enda virðist ætla að taka, en jafnframt stöðug sókn Samfylkingarinnar (mælist þrefalt stærri en í síðustu kosningum) og Miðflokksins sem hefur tvöfaldað fylgi sitt og er kyrfilega búinn að festa sig í sessi sem þriðji stærsti flokkurinn.

Athygli vekur að Viðreisn fer yfir tíu prósentin hjá Maskínu og mætti jafnvel tala um nokkra sókn; flokkurinn myndi bæta við sig tveimur þingsætum frá síðustu kosningum.

Í andstreymi ríkisstjórnarinnar undanfarin misseri hefur verið ein af ráðgátum íslenskra stjórnmála, hvers vegna Viðreisn hefur ekki notið þess að vera í stjórnarandstöðu. Nýjar áherslur flokksins á lífskjör heimilanna, baráttuna við verðbólguna og hátt vaxtastig virðast loks vera að ná í gegn. Þá hefur flokkurinn verið duglegur við að vekja athygli á bágborinni stöðu löggæslu í landinu, en borgaraleg öfl á Vesturlöndum leggja jafnan mikla áherslu á öryggi borgaranna.

Ekki leikur á tveim tungum að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er aðaltromp síns flokks, verandi formaður og fyrrverandi ráðherra. En þær hafa komið sterkt inn að undanförnu Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Hanna Katrín Friðriksson og látið ríkisstjórnina finna til tevatnsins í hverju málinu á fætur öðru.

Um leið og Viðreisn kannast við borgaralegt erindi sitt, getur flokkurinn sótt á fengsælli mið en finna má í vinstri-rétttrúnaði sem virtist um skeið hafa gleypt flokkinn með manni og mús. Borgaraleg öfl eru víða á siglingu í nágrannalöndunum og Viðreisn á að njóta vandræða Sjálfstæðisflokksins í núverandi stjórnarmynstri rétt eins og Miðflokkurinn, þótt af ólíkum ástæðum sé.

Viðreisn á heldur ekki að láta Samfylkingunni það eftir að eigna sér hina frjálslyndu miðju mótmælalaust, enda felast heilmikil tækifæri í því að gagnrýna skattapólitík jafnaðarmanna og áherslur í ríkisfjármálum.

Með skynsamlegum mannabreytingum fyrir næstu kosningar gæti Viðreisn komið sér í sterka stöðu hægra megin við miðju. Þeir fiska sem róa…