Erlendis væri fjármálaráðherra með þessa fortíð löngu farinn frá

Það er með ólíkindum hvað fjölmiðlar hafa lítið fjallað um frétt Stundarinnar eftir að lögbanni var aflétt um fjármál og virkan þátt Bjarna Benediktssonar í að stýra eða koma að fjárfestingum fjölskyldu sinnar upp á 130 milljarða kr.

Þetta segir Jóhanna Sigurðardóttir, fv. forsætisráðherra. Hún bendir á að öll fyrirtækin séu gjaldþrota eða hafi verið yfirtekin af kröfuhöfum.

„Afskriftirnar eru í samræmi við það. Bjarni og hans fjölskylda hafði sem sagt allt sitt á þurru meðan almenningur tapaði fúlgum frjár í hruninu,“ segir Jóhanna og undrast að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafi komið Bjarna í skjól á þingi í gær þegar Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, tók málið upp.

„Erlendis væri fjármálaráðherra með þessa fortíð löngu farinn frá og ítarleg rannsókn sett í gang. Ætlar stjórnarandstaðan að gera eitthvað í málinu, krefjast umræðu og rannsóknar á þessu, eða ætlar hún að þegja eins og flestir fjölmiðlar? Þetta mál er hneyksli og á ekki að líðast,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir.