Fagna samkeppninni en vilja að allir sitji við sama borð

Katrín Júlíusdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja og fv. ráðherra.

„Nú þegar er mikil samkeppni á íslenskum fjármálamarkaði. Það eru ekki bara nokkrir stórir bankar í útlánastarfsemi heldur fjöldi lífeyrissjóða og á sama tíma hefur fjöldi fjártæknifyrirtækja sprottið upp sem bjóða upp á lánaþjónustu og aðra fjármálaþjónustu í samkeppni við banka.“

Þetta segir Katrín Júlíusdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja í samtali við Viljann í tilefni þess að þýski netbankinn N26 hefur tilkynnt að hann ætli að hefja starfsemi hér á landi og bjóða Íslendingum upp á fjármálaþjónustu fyrir áramót. Netbankinn hefur opnað í fleiri Evrópulöndum að undanförnu og er í mikilli sókn.

Í fréttum Ríkisútvarpsins í hádeginu kom fram, að þýska fjármálaeftirlitið hafi tilkynnt Fjármálaeftirlitinu á Íslandi þann 29. júní 2017 að N26 netbankinn fyrirhugaði að veita hér þjónustu án útibús frá Þýskalandi.

Fjármálafyrirtækjum innan Evrópska efnahagssvæðisins er heimilt að stofnsetja hér útibú og einnig heimilt að veita þjónustu hér á landi án útibús. N26 bankinn hyggst veita þjónustu í gegnum app en ekki vera með útibú hér á landi eða umboðsmann. Hann mun því starfa alfarið í Þýskalandi.

Í tilkynningu frá bankanum segir að hann hyggist opna fyrir viðskipti á Íslandi og Liechtenstein fyrir áramót, en þegar hefur verið opnað fyrir viðskipti í Danmörku, Noregi, Póllandi og í Svíþjóð.

Hægt er að fá ókeypis aðgang að netbankanum fyrir einstaklinga eða fyrirtækjaaðgang sem greitt er fyrir. Færslur í bankanum eru gerðar í evrum og geta viðskiptavinir bankans fengið ókeypis Mastercard greiðslukort.

Mun þýski bankinn greiða bankaskatt?

Katrín segir mikla gerjun núna í fjármálaþjónustu. „Einsýnt er að fjártæknin muni leiða til enn meiri samkeppni. Þá eru íslensk lánafyrirtæki í samkeppni við erlend þegar kemur að stærri fyrirtækjalánum. Þessu fögnum við en bendum á að öll fjármálafyrirtæki sem veita sambærilega þjónustu eigi að sitja við sama borð þegar kemur að lagaumhverfi, sköttum og gjöldum. Þannig tryggjum við heilbrigt samkeppnisumhverfi sem eftirsóknarvert er að starfa á og tryggir neytendum raunverulegt val,“ segir hún.

N26 tók til starfa árið 2015 og veit­ir þjón­ustu í 22 lönd­um í Evr­ópu. Í októ­ber voru viðskipta­vin­ir hans 1,5 millj­ón­ir og voru milli­færsl­ur yfir ein­um millj­arði evra, eða sem nem­ur rúm­lega 130 millj­örðum ís­lenskra króna. Hjá bank­an­um starfa 500 manns.

Íslenskir bankar hafa kvartað yfir sérstökum bankaskatti sem íslensk stjórnvöld lögðu á innlendar fjármálastofnanir eftir hrun. Ekki liggur fyrir hvort erlendir bankar í samkeppni við þá innlendu þurfa líka að greiða slíkan skatt.

„Við áttum okkur ekki á því, það fer eftir tilhögun starfsleyfis og svo umfangs starfseminnar hér. Við erum að skoða þetta,“ segir Katrín aðspurð um hvort þýski bankinn mun einnig þurfa að greiða bankaskattinn.