Athygli vakti í síðustu viku þegar Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, boðaði til blaðamannafundar og kynnti ráðstafanir í ríkisfjármálum daginn fyrir flokksráðsfund Sjálfstæðisflokksins. Meðal þess sem þar kom fram, voru 17 milljarða ráðstafanir á næsta ári til „að hægja á vexti útgjalda“ eins og það var orðað. Ekki var semsé verið að skera niður, heldur hægja á vextinum. Enda blæs báknið bara út í góðum takti við minnkandi fylgi Sjálfstæðisflokksins. Skyldi vera samhengi þar á milli?
Við sama tækifæri lét ráðherrann þau ummæli falla, sem nokkra athygli vöktu, að það væri ekki hlutverk ríkisfjármálanna að halda aftur af verðbólgunni, heldur sé það hlutverk Seðlabankans. Hann segir orðið langsótt hjá Seðlabankanum að vísa ábyrgð á hárri verðbólgu á aðra en sjálfan bankann sem hafi verkfærin til að vinna bug á verðbólgunni.
Viljinn las grein ágæta Bergþórs Ólasonar, þingflokksformanns Miðflokksins, í Mogganum í morgun og fór af því tilefni að glugga í gamlar fréttir. Eins og fólk gerir á föstudögum. Og hvað kemur þá í ljós? Jú, svo virðist sem þessi sami fjármálaráðherra hafi líka boðað blaðamenn á sinn fund þann 29. mars í vor og þá kynnt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára. Í tilkynningu sem ráðuneyti hans sendi út af því tilefni, sagði:
„Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára sýnir þá stefnu ríkisstjórnarinnar að beita ríkisfjármálunum með markvissum hætti til að sporna gegn verðbólgu og frekari hækkun vaxta með auknu aðhaldi, tekjuöflun og frestun framkvæmda.“
Á fimm mánuðum fórum við Íslendingar semsé frá því að hafa fjármálaráðherra sem kynnti stefnu ríkisstjórnarinnar um beitingu ríkisfjármálanna með „markvissum hætti“ til að sporna gegn verðbólgu yfir í fjármálaráðherra sem telur slíkt ekki hlutverk ríkisfjármálanna.
Hvað skyldi hafa breyst? Getur verið að ráðherrann hafi undanfarna mánuði reynt að fá einstaka fagráðherra til að minnka báknið, koma með tillögur um aðhald og niðurskurð, en ekkert orðið ágengt? Að hann hafi hreinlega gefist upp á verkefninu? Að auðveldara hafi verið að vona að enginn muni hvað hann segir á eigin blaðamannafundum í stað þess að setja fram raunverulegar aðgerðir?
Það lítur allavega þannig út.
Í þinginu í vor, við seinni umræðu um þessa sömu ríkisfjármálaáætlun, steig fjármálaráðherrann í pontu, varði eigin tillögur af hörku og gef lítið fyrir tillögur stjórnarandstöðunnar um breytingar.
Orðrétt sagði hann:
„Þeir sem vilja yfirbjóða þetta, þeim er velkomið hérna við lokaafgreiðslu þessa máls að koma með tillögurnar þannig að það standi eitthvað eftir, eftir öll stóru orðin sem hafa fallið hér í umræðunni um að það sé ekkert verið að gera í því að draga úr útgjöldum ríkissjóðs. Í því sambandi myndi ég segja að upphafsverðmiðinn ætti að vera 25 milljarðar. Þeir sem koma með tillögur um að gera eitthvað minna en 25 milljarða eru ekki að leggja neitt markvert til í baráttunni gegn verðbólgu. Þeir sem ekki geta lagt fram tillögur hér á þinginu um að auka aðhaldið og draga úr hallanum sem nemur svona hálfu prósenti af landsframleiðslu eru eiginlega ekki marktækir í umræðunni.“
Það var og.
Maður að nafni Bjarni Benediktsson kynnti einmitt 17 milljarða aðhaldsaðgerðir í síðustu viku. Daginn fyrir flokksráðsfund. Getur verið að það sé sami maður og taldi í vor að allt undir 25 milljörðum væri ómarktækt?
Getur það verið? Það er kannski ekki skrítið að margir séu pólitískt hugsi þessa dagana…