Fjölmiðlar fái frið fyrir óþarfri Fjölmiðlanefnd

Ólöf Skaftadóttir ritstjóri Fréttablaðsins.

Fáar ríkisstofnanir eru jafn óþarfar og fjölmiðlanefnd. Engum dylst erfitt ástand á íslenskum fjölmiðlamarkaði, nema helst fjölmiðlanefnd, sem ætlað er í orði „að efla fjölmiðlalæsi, fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum“. Á borði virðist hlutverk nefndarinnar felast í því að leggja stein í götu fjölmiðla með sektum, boðum og bönnum. Í umboði stjórnvalda.

Þetta segir Ólöf Skaftadóttir, ritstjóri Fréttablaðsins, í leiðara blaðsins í dag. Hún vekur athygli á nýlegu dæmi þar sem nefndin hafi varið tíma og skattfé í að sekta íslenska tímaritið Glamour fyrir að birta áfengisauglýsingar í blaðinu. Í bókaverslunum er því þó raðað við hlið erlendra keppinauta á borð við amerísku útgáfu Glamour, sem virðist hafa fullt leyfi til að birta íslenskum lesendum áfengisauglýsingar.“

Og Ólöf bætir við:

„Langt er síðan öllum varð ljóst að ekki er hægt að viðhalda banni við áfengisauglýsingum. Þær eru alls staðar, líkt og bent hefur verið á. Sá málflutningur virðist seint ætla að berast þeim til eyrna sem hafa með málið að gera. Meðal annars þess vegna lifir tilgangslaus stofnun á borð við fjölmiðlanefnd góðu lífi.

Áfengisauglýsingar er að finna á Facebook og samfélagsmiðlareikningum íslenskra áhrifavalda, í útsendingum frá íþróttaleikjum og erlendum tímaritum sem flutt eru til landsins. Þótt þær séu bannaðar í íslenskum dagblöðum og meira að segja íslenskum tímaritum sem eru starfrækt frá Bretlandi verður ekkert við því gert að áfengi er og verður auglýst. Öll rök fyrir banninu féllu um sjálf sig þegar fólk áttaði sig á því fyrir löngu að internetið væri komið til að vera.

Alþjóðlegir netrisar, eins og Google og Facebook, hafa beinlínis lögverndað forskot á íslensku miðlana, sem vitaskuld verða undir. Erlendu miðlarnir greiða ekki skatta hér á landi og lúta ekki sömu íþyngjandi reglum og þeir íslensku.

Alþjóðlegir netrisar, eins og Google og Facebook, hafa beinlínis lögverndað forskot á íslensku miðlana, sem vitaskuld verða undir. 

Kannski er vandamálið einfaldlega að fjölmiðlanefnd talar ekki útlensku. Á meðan tapa íslenskir fjölmiðlar. Innlendir auglýsendur beina viðskiptum sínum tilneyddir til útlanda og alþjóðlegir netrisar græða á meðan íslenskir fjölmiðlar segja upp fólki. Hér er ekki verið að biðja um sérstaka fyrirgreiðslu, heldur að allir sitji við sama borð. Ekki veitir af í alþjóðavæddum heimi.

Ef ætlun menntamálaráðherra er ekki að láta frjálsa fjölmiðla deyja út á sinni vakt þarf hún að minnsta kosti að búa þannig um hnútana að þeir fái að starfa í friði fyrir óþarfri nefnd um lög sem standast ekki tímans tönn. Það er lágmark,“ segir Ólöf í leiðara Fréttablaðsins í dag.