Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, kynnti í dag útspilið Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum. Í tilkynningu segir að þetta sé afrakstur af metnaðarfullu málefnastarfi undanfarna sex mánuði þar sem öll athygli flokksins hefur beinst að heilbrigðis- og öldrunarmálum — samkvæmt nýrri nálgun sem lögð var upp á flokksstjórnarfundi í Hafnarfirði í mars síðastliðnum. Í útspilinu eru sett fram fimm þjóðarmarkmið og örugg skref í rétta átt.
„Þetta er tveggja kjörtímabila vegferð – fimm þjóðarmarkmið og örugg skref í rétta átt. Áherslurnar eru sóttar til almennings — á hátt í 40 opnum fundum um land allt. Og svo höfum við átt annað eins af fundum á vinnustöðum, með fólkinu af gólfinu og öðrum sérfræðingum um heilbrigðismál. Þetta veitir okkur styrk og fullvissu,“ sagði Kristrún á fjölmiðlafundi í Mjódd í dag við kynningu á útspilinu.
„Útspilið endurspeglar raunhæfar væntingar fólksins í landinu og breytingar sem eru gerlegar á tveimur kjörtímabilum. Það er hægt að gera þetta — með pólitískri forystu og samstöðu þjóðar um fjármögnun. Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum verða höfuðáhersla Samfylkingar í næstu kosningum til Alþingis.“
Í vikunni mun forysta flokksins vera á ferð og flugi um land allt að kynna útspilið, fyrst í dag í Reykjanesbæ í dag, Reykjavík á morgun, nánar tiltekið í Kringlunni og Skeifunni, í Hafnarfirði á fimmtudag og á Húsavík á föstudag.
Fimm þjóðarmarkmið:
Fólk fái fastan heimilislækni og heimilisteymi
Þjóðarátak í umönnun eldra fólks
Öruggt aðgengi um land allt
Meiri tími með sjúklingnum
Tökum ábyrgð á heilbrigðiskerfinu í heild