Eftir Jón Steinar Gunnlaugsson:
Þættir RÚV um hrunið á síðustu dögum hafa verið fróðlegir og þar hefur ýmislegt komið fram sem skýrir hluta af þeirri atburðarás sem varð. Tvennt fannst mér þó vanta í frásögnina, sem hvort tveggja snertir framgöngu Hæstaréttar í sakamálunum sem voru höfðuð gegn stjórnendum bankanna.
Það fyrra voru dómar á hendur þeim fyrir að hafa gerst sekir um brot sem nefnast umboðssvik. Þessi brot eru gerð refsiverð með 248. gr almennra hegningarlaga, þar sem lýst er svonefndum auðgunarbrotum. Í upphafi kaflans um auðgunarbrot er svofellt ákvæði sem á við öll brot sem kaflinn tekur til: „Fyrir brot þau, er í þessum kafla getur, skal því aðeins refsa, að þau hafi verið framin í auðgunarskyni.“
Í 248. gr. er umboðssvikabrotinu lýst svo: „Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi.“
Af þessum ákvæðum leiðir að ekki má refsa fyrir umboðssvik nema tilgangur brotamanns til auðgunar með broti sé sannaður í málinu. Í forsendum dóms ber þá að skýra með fullnægjandi hætti hvernig sú sönnun er fundin.
Margir þeir sem sakfelldir voru í þessum hrunmálum voru taldir hafa gerst sekir um umboðssvik. Í forsendum dómanna var þó hvergi skýrt hvernig sönnun um tilgang til auðgunar væri fundin, enda liggur fyrir að slíkur tilgangur vakti ekki fyrir þessum mönnum. Þeir voru einfaldlega að reyna að bjarga bönkunum frá fjártjóni þó að viðleitni þeirra til þess hafi sjálfsagt ekki verið gáfuleg eða vel heppnuð.
Í forsendum Hæstaréttar í þessum málum var annað skilyrði sett í staðinn fyrir skilyrðið um auðgunarásetning. Í staðinn var sakfellingin sögð byggjast á því að hinir ákærðu hefðu með háttsemi sinni valdið mikilli hættu á að viðkomandi banki yrði fyrir fjártjóni. Þetta geta dómstólar ekki gert. Þeir verða beita ströngum mælikvarða á lögákveðin skilyrði fyrir refsingum og er auðvitað algerlega óheimilt að setja inn ný skilyrði í stað þeirra sem lagaákvæði kveður á um. Í dómum réttarins er að finna mörg dæmi um að ekki sé unnt að refsa mönnum nema sannað sé að öll skilyrði refsireglu séu uppfyllt.
Ég þekki engin önnur dæmi um að Hæstiréttur hafi farið fram með þessum hætti. Það er eins og dómurunum við réttinn hafi legið mikið á um að sakfella hina ákærðu. Kannski til að sýna landsmönnum að rétturinn væri nú ekki feiminn við að beita þá hörðum viðurlögum fyrir fall bankanna og það fjártjón sem margir biðu fyrir vikið. Dómstólar mega hins vegar aldrei láta meinta afstöðu almennings til sakbornings hafa minnstu áhrif á dóma sína.
______________
Í beinu framhaldi af þessu síðastnefnda kemur hitt atriðið sem aðeins var lítillega minnst á í sjónvarpsþáttunum en var samt grafalvarlegt. Þar á ég við beina hagsmuni sumra dómara Hæstaréttar af fjárhag bankanna, þar sem dómararnir höfðu sjálfir tapað háum fjárhæðum við hrunið. Þetta hefði auðvitað átt að leiða til vanhæfis þeirra dómara sem svona stóð á um. Verið var að dæma um sakir bankamanna fyrir að hafa valdið þessu tjóni. Um þetta vissi enginn þegar dómarnir voru kveðnir upp, því dómararnir þögðu um þetta og dæmdu svo sakborningana til frelsissviptinga. Þetta var ljótur leikur.
Stórtækastur í þessu virðist hafa verið Markús Sigurbjörnsson þáverandi forseti Hæstaréttar. Samkvæmt upplýsingum úr Glitni-banka hf. hafði hann átt 13.832 hluti í Glitni-banka hf. sjálfum. Síðan hafði hann afhent þessum sama banka 61.450.000 krónur til svonefndrar eignastýringar í janúar og febrúar 2008. Lá fyrir að þessir fjármunir höfðu rýrnað um 7.607.000 krónur (verðbréfasjóðir) í hruninu.
Hér tek ég dæmi af dómi yfir einum hinna sakfelldu M, sem hafði verið dæmdur af Hæstarétti 3. desember 2015 fyrir umboðssvik til að sæta fangelsi í 2 ár (H.478/2014). Þrír aðrir sakborningar voru í sama dómi dæmdir fyrir umboðssvik. Þessar sakfellingar voru allar byggðar á því að ákærðu hefðu valdið bankanum verulegri fjártjónsáhættu við lánveitingu til fyrirtækisins BK-44 ehf. Ekki var í forsendum dómsins minnst á auðgunartilgang.
Einn dómaranna í þessu máli var Markús Sigurbjörnsson forseti Hæstaréttar. Eftir að fram voru komnar upplýsingar um ofangreint fjártjón hans í hruninu, freistaði M þess að fá mál sitt endurupptekið vegna vanhæfis þessa dómara. Beindi hann beiðni sinni til endurupptökunefndar á árinu 2017. Féllst nefndin á beiðnina með úrskurði 23. október 2020. Ekki er þörf á því hér að reifa forsendur nefndarinnar fyrir niðurstöðu sinni. Mál M var svo endurupptekið og dæmt með hæstaréttardómi 25. júní 2022 (mál nr. 35/2020). Var ekki fallist á að Markús hefði verið vanhæfur til að dæma í máli M og var hinu endurupptekna máli því vísað frá Hæstarétti.
Þetta var kostuleg niðurstaða svo ekki sé meira sagt. Byggðist hún á því að fjártjón Markúsar dómara yrði ekki talið verulegt, þegar „horft er til þeirra efnahagsáhrifa sem þorri almennings þurfti að þola á þessum tíma“. Þá gæti umrædd rýrnun heldur ekki talist veruleg í íslensku samhengi og „þegar litið er til þess óstöðugleika í efnahagsmálum sem gætt hefur hér á landi á liðnum áratugum í samanburði við nágrannalönd.“
Ekki er á því nokkur vafi að fjártjón dómara, á borð við það sem Markús Sigurbjörnsson varð fyrir, veldur vanhæfi dómara, þegar maður, sem talinn er hafa átt þátt í að valda tjóninu, er sóttur til saka vegna þess. Þegar þessi dómur var kveðinn upp hafði Markús Sigurbjörnsson látið af störfum. Dóminn kváðu upp hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Karl Axelsson auk tveggja settra dómara af neðri dómsstigum. Skal minnt á að Markús Sigurbjörnsson hafði verið eins konar guðfaðir dómaranna, þ.m.t. þeirra sem kváðu upp dóminn.
Mannréttindadómstóll Evrópu mun hafa til meðferðar kæru, þar sem hæfi Markúsar til meðferðar hrunmálanna er borið undir dóminn. Hefur meðferð málsins þar ytra tekið langan tíma en talið er líklegt að heyrast muni frá dómstólnum innan tíðar.
Þetta er einfaldlega enn eitt dæmið um misnotkun Hæstaréttar í þágu annarlegra viðhorfa dómaranna, sem alls ekki eiga né mega koma við sögu við úrlausn mála hjá dómstólum og þá allra síst hjá æðsta dómstól þjóðarinnar.
Höfundur er lögmaður og fv. hæstaréttardómari.