Andrés Magnússon, einn helsti stjórnmálablaðamaður landsins og fulltrúi ritstjóra á Morgunblaðinu, undrast hina hörðu gagnrýni sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskólamála, hefur fengið fyrir ræðu sína á sjávarútvegsdegi í Hörpu í vikunni, þar sem hún sneiddi að Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra í ræðu sinn og glærukynningu.
Nokkrar umræður hafa skapast um málið á samfélagsmiðlum. Til að mynda segst Ólafur Hauksson, margreyndur blaðamaður og almannatengill, lengi hafa fylgt Sjálfstæðisflokknum að málum og þyki frekar klént að ráðherra flokksins hafi talið lófaklappsins virði að sneiða með þessum hætti að samstarfsmanni í ríkisstjórn. „Þetta heitir að fara í manninn en ekki boltann og ég hélt að það væri enginn skortur af boltum á vellinum,“ segir hann.
Þessu svarar Andrés Magnússon þannig:
„Með hvaða hætti var „farið í manninn“? Með því að nefna að hann væri til? Með því að birta mynd af kýrauga?
Þvert á móti má gagnrýna Áslaugu Örnu fyrir að hafa ekki farið harðar í Svandísi, sem hefur orðið uppvís að lögbrotum og valdníðslu, sniðgengur fjárveitingavaldið eftir þörfum, segir þinginu ekki allt af létta og boðar frumvörp um heildarlög í sjávarútvegi án þess að í stjórnarsáttmála sé kveðið á um neitt slíkt.
Aðallega eiga þó hinir gagnrýni skilið, aumingjarnir sem ekki þora að nefna þetta einu orði, vilja frekar láta stjórnarskrána, góða stjórnsýslu og lögin lönd og leið frekar en að styggja bulluna í teboðinu.“