Guðna líkt við Bjart í Sumarhúsum: Er verið að drepa landbúnaðinn?

Guðni Ágústsson fv. ráðherra. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Hugleiðingar gærdagins eru í boði tveggja þekktra framsóknarmanna, þeirra Guðna Ágústssonar á Brúnastöðum, fyrrverandi landbúnaðarráðherra og formanns Framsóknarflokksins og Jóhannes Þórs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar og fv. aðstoðarmanns Sigmundar Davíðs þegar hann var formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra í sínu fyrra pólitíska lífi.

Fréttaritari landsbyggðarinnar nr. eitt, Magnús Hlynur Hreiðarsson garðyrkjumaður á Selfossi, var með innslag í kvöldfréttum Stöðvar 2, þar sem Guðni Ágústsson mætti þungbrýnn sem aldrei fyrr og gagnrýndi ríkisstjórnina og Alþingi harðlega fyrir sofandahátt varðandi erfiða stöðu bænda og segir að hrina gjaldþrota blasi við verði ekkert gert. Þá sagði hann ferðaþjónustuna vera að drepa hinn hefðbundna landbúnað.

„Ég bara skora á ríkisstjórnina að bretta upp ermar og opna augun og gera sér grein fyrir því að matvælalandið Ísland, við erum að tapa því út úr höndunum ef þeir ekki taka stórt á núna,” sagði Guðni og virðist líta svo á að það sé neikvætt að fleiri tekjumöguleikar blasi við ungum bændum en einvörðungu styrkjakerfi landbúnaðarins gegnum hið opinbera. Margir bændur eru komnir á fullt í ferðaþjónustuna og hafa þess vegna sloppið við að bregða búi; jafnvel bætt við sig mannskap og byggt upp blómlega sveit.

Ferðaþjónustan átti að bjarga en er að drepa

„Ferðaþjónustan átti að bjarga hér landsbyggðinni. Nú er ferðaþjónustan, sem ferðamaðurinn vill njóta. Nú er hún að drepa landbúnaðinn. Það er auðvelt að hætta og loka fjósinu og breyta því bara í gistihús. Þetta er bara alvarlegt mál eins og oft koma á borð þessarar þjóðar,” sagði Guðni Ágústsson í gærkvöldi.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Við þessu bregst Jóhennes Þór á fésbókinni og líkir Brúnastaðabóndanum við eina þekktustu sögupersónu bókmenntanna, sjálfan Bjart í Sumarhúsum:

„Hér fer Guðni Ágústsson með lífsspeki Bjarts í Sumarhúsum af stakri andakt!

Tvær milljónir ferðamannamunna og -maga sem eru sólgnir í íslenskar landbúnaðarvörur – sem er ekkert annað en útflutningur á íslenskum matvælum í túninu heima. Hundruð bænda um allt land sem drýgja búrekstrartekjurnar með ferðaþjónusturekstri sem hefur bætt lífskjör þeirra og bjargað sumum frá því að þurfa að bregða búi.

Þetta er mikil óáran, segir Bjart… afsakið, Guðni, það er náttúrulega rugl að kaupa kú til að heimilisfólk geti fengið mjólkursopa á hverjum degi, bölvuð beljan mundi éta allt heyið frá rollunum,“ segir Jóhannes Þór.