Fréttaskýring á sunnudegi:
Gríðarleg spenna er nú innan Sjálfstæðisflokks vegna vaxandi þrýstings um að festa í lög innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Iðnaðarráðherra stefnir að því að leggja fram frumvarp þessa efnis eftir áramót, en fjölmargir þingmenn eru andsnúnir því og grasrótin er almennt á móti. Forysta flokksins óttast að andstaða við innleiðinguna myndi þýða að Ísland yrði að segja sig frá Evrópska efnahagssvæðinu með tilheyrandi afleiðingum.
Til stendur að leggja fram þingmál í febrúar á næsta ári um samþykkt svonefnds þriðja orkupakka Evrópusambandsins vegna aðildar Íslands að EES-samningnum. Þetta kemur fram í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar.
Sjá einnig: Jón Baldvin varar við orkupakka III: Myndi hækka raforkuverð gríðarlega hér á landi
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hyggst leggja fram frumvarp um breytingar á raforkulögum nr. 65/ 2003 og lögum nr. 87/ 2003 um Orkustofnun í febrúar. „Frumvarpið felur í sér innleiðingu á þriðju raforkutilskipun ESB að því er varðar sjálfstæði raforkueftirlits Orkustofnunar.“

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hyggst í sama mánuði leggja fram þingsályktunartillögu um ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á EES-samningnum vegna innleiðingar á þriðja orkupakkanum. Meðal annars um að koma á fót samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði sem nefnd hefur verið ACER.
Mjög skiptar skoðanir
Skoðanir um þetta mál eru mjög skiptar innan Sjálfstæðisflokksins og litast afstaðan ekki einungis af því hvort menn hafa verið hlynntir aðild að ESB eða ekki. Þannig skilaði lögfræðingurinn Birgir Tjörvi Pétursson greinargerð til iðnaðarráðherra þar sem segir að innleiðing á þriðja orkupakka Evrópusambandsins í lög hér á landi fæli ekki í sér slík frávik frá þverpólitískri stefnumörkun og réttarþróun á Íslandi að það kalli sérstaklega á endurskoðun samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Birgir Tjörvi er fv. framkvæmdastjóri Heimssýnar, félags andstæðinga aðildar að ESB sem leggst alfarið gegn innleiðingunni.
Þá hefur Björn Bjarnason fv. ráðherra varið hina fyrirhuguðu innleiðingu af fullum krafti og sagt hana eðlilegan þátt í EES-samstarfinu.

Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins og fv. forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur hins vegar tekið eindregna afstöðu gegn innleiðingu orkupakkans og spurt hvort forysta Sjálfstæðisflokksins ætli virkilega að gera svipuð mistök og í Icesave-málinu, en það sé mál sem margir eigi mjög erfitt með að fyrirgefa flokknum.
Innleiðing orkupakkans hefur mjög verið rædd á stjórnmálafundum Sjálfstæðisflokksins undanfarnar vikur og hefur hávær andstaða flokksfólks þar verið áberandi.
Brynjar vill ekki innleiða
„Ég vil reyna að komast hjá því í lengstu lög, ef það er hægt, að innleiða þennan orkupakka,“ sagði Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins í þættinum Þingvöllum á K100 í morgun. Björt Ólafsdóttir fv. umhverfisráðherra var umsjónarmaður þáttarins og ásamt Brynjari sat Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra fyrir svörum. Hann sagði Miðflokksmenn vera tilbúna að berjast með þingmönnum Sjálfstæðisflokksins gegn innleiðingunni.
Í frásögn mbl.is af samræðunum segir að samstaða hafi verið með viðmælendunum tveimur varðandi áhrif EES-samningsins á Ísland.

„Þetta er vandinn við þennan samning. Það sem gerist alltaf er að það er alltaf gengið lengra og lengra. Framsalið á valdinu verður alltaf meira og meira. Þá er spurningin: Eigum við alltaf að teygja okkur lengra í þessa átt eða eigum við að spyrna niður fæti og segja: „Þetta er orðið eitthvað of mikið“?,“ sagði Brynjar ennfremur.
Björt Ólafsdóttir lét þess getið í þættinum, að erfitt hefði verið að fá viðmælendur frá Sjálfstæðisflokki í þáttinn, þrátt fyrir að ráðherrar úr röðum flokksins, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra, færu fyrir málinu.