Hringferð SA: Ríkur vilji til langtímasamninga

Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, fer yfir svigrúmið í komandi kjaraviðræðum. /SA.

Hringferð Samtaka atvinnulífsins (SA) stendur nú yfir og hafa samtökin þegar komið víða við. Á fyrstu viku hringferðar var farið á Selfoss, Reykjanesbæ, Egilsstaði og Ísafjörð. Á var haldið í Borgarnes og í gærmorgun var Reykjavíkurfundurinn vel sóttur á Hilton Reykjavík Nordica, að því er greint er frá á heimasíðu samtakanna.

„Opnu vinnufundirnir hafa verið vel sóttir og hefur mikill samhljómur verið á meðal gesta um þær áskoranir sem framundan eru og leiðirnar fram á við. Einhugur hefur verið um að aðilar vinnumarkaðarins eigi að semja til langs tíma og innan svigrúms með það að markmiði að verja kaupmátt. Þá telur fólk almennt mikilvægt að hið opinbera leiði ekki launaþróun eða setji atvinnulífinu of þröngar skorður með íþyngjandi regluverki. Enn fremur hafa þátttakendur á fundunum talið mikilvægt að almenningur og einstakir atvinnurekendur stuðli að upplýstri umræðu um samhengi launabreytinga og verðbólgu og að fræðsla um kaup, kjör og réttindi launafólks verði aukin,“ segir þar ennfremur.

Á morgun, föstudag, er ferðinni heitið til Akureyrar og viku síðar verða forkólfar SA í Vestmannaeyjum.