Hvað er eiginlega að frétta? Forseti Alþingis beðinn að vekja verklitla ríkisstjórn

Jóhann Páll Jóhannsson í umræðum um fjárlög á Alþingi. Við hlið hans er Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. / Hari.

„Síðustu helgi var haldinn sérstakur blaðamannafundur til að tilkynna að ríkisstjórn Íslands væri ekki sprungin, þau vilja halda áfram vegna stórra áskorana og fjölmargra verkefna, eins og ráðherrar orðuðu það. En hvaða verkefna? Síðasta löggjafarþing var eitt það verkminnsta í manna minnum. Málin skiluðu sér seint og illa og á endanum náðist sátt milli stjórnarflokkanna um fátt annað en að slátra málunum þeirra. Og nú er komin upp aftur þessi staða að ríkisstjórnin hefur varla nein mál til að mæla fyrir,“ sagði Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar á Alþingi í dag.

Hann benti á að aðeins svokölluð þingmannamál væru á dagskrá þingsins í dag, en ekki lagafrumvörp eða þingsályktanir á vegum ráðherra ríkisstjórnarinnar. „Í dag eru bara þingmannamál á dagskrá, mál sem allir vita að verða ekki að lögum og verkefnastaðan er svo fátækleg hjá ríkisstjórninni að það hefur verið biðlað sérstaklega til stjórnarandstöðunnar að halda hér uppi dagskránni með þingmannamálum sem munu svo drepast inni í nefndum.

Hæstv. forseti. Hvað er eiginlega að frétta? Er kannski tímabært að forseti banki aðeins í ríkisstjórnina og vekji hana þannig að hún geti farið að koma sér að verki?,“ spurði Jóhann Páll.

Ekki var annað að heyra en forseti Alþingis, Birgir Ármannsson, hefði nokkurn skilning á athugasemdum þingmannsins. Svar hans var þannig: „Af þessu tilefni vill forseti segja að staða varðandi framlagningu mála er með svipuðum hætti og var á síðasta ári en forseti hefur vakið athygli á því að áform um að mál kæmu fyrr inn en ella hafa ekki enn þá skilað árangri. Það er ábending sem forseti hefur komið á framfæri og mun ítreka við hæstv. ríkisstjórn.“