„Hver verður framtíð Grindavíkur?“

„Maður verður auðvitað áhyggjufullur. Hver verður framtíð Grindavíkur, það er kannski fyrsta spurningin sem kemur upp í mínum huga,“ sagði Þorvaldur Þórðarson prófessor í eldfjallafræði í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins er hann skoðaði nýjar loftmyndir sem Ingvar Haukur Guðmundsson, myndatökumaður fréttastofu RÚV, tók úr þyrlu Landhelgisgæslunnar yfir Grindavík í dag.

Í stjórnkerfinu hefur sama spurning komið aftur og aftur undanfarna sólarhringa og enn er ekkert svar til við þessari spurningu, enda vonum við öll það besta og að ekki verði af eldgosi á þessum slóðum. Hins vegar benti Þorvaldur á að líkur standi til þess að sprungan nái út í sjó og enginn vafi leiki á því að þarna hefðu þegar orðið miklar náttúruhamfarir, óháð því hvort gýs eður ei.

Gríðarleg ummerki eru í Grindavík eftir jarðskjálfta síðustu daga og kvikugang neðanjarðar. Á erlendri vefsíðu eldfjallafræðinga er þeirri spurningu hreinlega velt upp, hvort Grindavík sé að hverfa ofan í sjóinn.

Á vef Rannsóknareiningar í eldfjallafræði og náttúruvá á vegum Háskóli Íslands voru birtar þrjár athyglisverðar myndir í dag. Annars vegar tvær myndir af misgengjum þeim sem afmarka sigdalinn sem liggur gegnum Grindavík og svo dagsgamalt kort af Grindavíkurbæ.

Fyrri myndin (sem er hér að ofan) er loftmynd frá árinu 1954 og sýnir að misgengin sem afmarka sigdalinn sem liggur í gegnum Grindavík voru til staðar þá og sennilega hefur þessi sigdalur myndast í Sundhnúkagosinu fyrir meira en 2000 árum. Núverandi virkni virðist hafa virkjað þessi misgengi á ný og stækkað/dýpkaði sigdalinn. Svæðið á milli vestur- og austur-marka sigdalsins (sýnt með rauðu brotalínunum) féll niður í þeim umbrotum.

Seinni myndin (hér að ofan) sýnir legu þessara gömlu misgengja á korti af Grindavík eins og hún er í dag. Nýju fersku sprungurnar eru í nákvæmlega sama fari og þær gömlu.

Þriðja myndin er svo dagsgamalt kort af Grindavíkurbæ. Stuttu örvarnar vísa á gömlu misgengin sem hreyfðust á ný eftir atburði föstudagsins. Stóra örin vísar á svæðið sem hefur fallið niður (um ~1 m).