Íbúðaverð hækkar enn og kaupsamningum fjölgar

Byggingaframkvæmdir í höfuðborginni. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

 Vísitala íbúðaverðs hefur hækkað síðustu þrjá mánuði, viðskiptum með íbúðarhúsnæði fer aftur fjölgandi og fyrstu kaupendum hefur fjölgað verulega á þriðja ársfjórðungi. 

Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans og teljast varla góðar fréttir fyrir landsmenn í baráttunni við verðbólguna. Fram kom í yfirlýsingu Peningastefnunefndar Seðlabankans í vikunni, að líklega hefðu stýrivextir verið hækkaðir enn frekar, ef ekki hefði verið fyrir óvissu vegna jarðhræringanna á Reykjanesi og mögulegrar eldgosavár.

Hagfræðingar Landsbankans benda á að síaukin þörf á húsnæði spili að líkindum inn í hækkun fasteignaverðs nú þrátt fyrir hátt vaxtastig og ekki sé ólíklegt að hávær umræða um yfirvofandi íbúðaskort og ónóga uppbyggingu ýti undir væntingar um verðhækkanir og kyndi þar með undir eftirspurn.

Hlutdeildarlán ýti þá undir sölu á nýjum íbúðum og hjálpi fyrstu kaupendum að koma inn á markaðinn. Þá megi einnig vera að óbreytt stýrivaxtastig auki bjartsýni á íbúðamarkaði og auk þess kunni kaupmáttaraukning á seinni hluta árs að hafa áhrif.