Innlend stjórnmál hafa breyst í eitt stórt Pollamót

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

Á hundrað ára fullveldi Íslands virðist ríkisstjórn landsins fyrirmunað að gera það eina sem þjóðin krefst af henni, það er að verja fullveldið, fullveldið sem svo margir lögðu svo mikið á sig til að öðlast.

Þetta segir í stjórnmálaályktun Flokksráðs Miðflokksins sem fundaði á Akureyri um helgina. Ályktun fundarins hefur verið birt á heimasíðu flokksins og þar má sjá, að Miðflokksmenn leggjast einarðlega gegn hugmyndum um innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins, en deilur um það mál verða sífellt háværari í íslenskri þjóðmálaumræðu.

„Á hundrað ára fullveldisafmæli virðist allt benda til þess að ríkisstjórnin ætli sér að innleiða hinn svokallaða þriðja orkupakka Evrópusambandsins, þrátt fyrir ótal viðvaranir, heimanfrá og að utan.  Það er ótækt að jafn stórt hagsmunamál og hér um ræðir sé látið reka á reiðanum af starfandi stjórnvöldum.  Að líkindum í trausti þess að málið, sem kallar á verulegt fullveldisframsal, renni í gegnum ríkisstjórn og Alþingi, án þess að til varna verði tekið.

Slík framganga kemur ekki á koma á óvart hjá ríkisstjórn sem hefur það sem sitt helsta markmið að tryggja ráðherrastóla,“ segir í stjórnmálaályktuninni.

Rök er snúa að heilnæmi innlends landbúnaðar eru afgreidd sem forpokuð, rök sem snúa að mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu og matvælaöryggi fyrir íslenska þjóð eru afgreidd sem afturhaldssöm

Þar segir jafnframt að áhugaleysið gagnvart fullveldinu skíni líka í gegn hjá ríkisstjórninni þegar kemur að landbúnaði.

„Rök er snúa að heilnæmi innlends landbúnaðar eru afgreidd sem forpokuð, rök sem snúa að mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu og matvælaöryggi fyrir íslenska þjóð eru afgreidd sem afturhaldssöm og sögð merki um þjóðernishyggju.  Tilfinningin fyrir stolti gagnvart eigin þjóð og því sem hún hefur áorkað virðist hið mesta blótsyrði.

Á undanförnum árum hefur áhersla íslenskra stjórnmálamanna færst frá því að ná árangri fyrir umbjóðendur sína, yfir í það að á engan slettist, enginn þurfi að rökræða sig að niðurstöðu, enginn verði undir og enginn þurfi að bakka.  Innlend stjórnmál hafa breyst í eitt stórt Pollamót, þar sem allir fá að vera með og enginn þarf að standa fyrir máli sínu og því síður að verða undir á markaðstorgi hugmynda.

Á grundvelli hugmynda verða stjórnmálaflokkar til, og það fólk sem safnast til starfa er þar til að hafa áhrif.  Áhrif til að bæta samfélagið.  Færa það í þá átt sem stefnan býður.

Við Íslendingar eigum að vera stolt af því samfélagi sem forfeður okkar byggðu upp af dugnaði og eljusemi.  Við eigum að vera stolt af þeim auðlindum sem við nýtum, hvort sem það eru fiskistofnar lögsögunnar, jarðirnar sem bændur, vörslumenn landsins erja, bláir akrar fjarða landsins, fallvötnin eða þau óteljandi tækifæri sem við stöndum frammi fyrir með því hugviti sem í þjóðinni býr,“ segir í stjórnmálaályktuninni.