Jón Baldvin varar við orkupakka III: Myndi hækka raforkuverð gríðarlega hér á landi

Orkuverð á Íslandi mun hækka gríðarlega ef íslensk stjórnvöld samþykkja að innleiða svonefndan orkupakka þrjú. Þetta segir Jón Baldvin Hannibalsson fv. utanríkisráðherra sem hingað til hefur verið talinn einhver ötulasti talsmaður aðildar Íslands að Evrópusambandinu.

Í maí 2017 ákvað sameiginlega EES-nefndin að fella svonefndan þriðja orkupakka Evrópusambandsins inn í EES-samninginn. EFTA-ríkin þrjú sem eiga aðild að EES – Ísland, Liechtenstein og Noregur – gerðu stjórnskipulegan fyrirvara við ákvörðunina og mun hún því ekki öðlast gildi fyrr en öll þrjú ríkin hafa aflétt fyrirvaranum fyrir sitt leyti. Þjóðþing Noregs og Liechtenstein hafa aflétt fyrirvaranum en það hefur Alþingi ekki gert. Ríkisstjórnin hyggst leggja fram tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, svo og frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum vegna innleiðingar á þriðja orkupakkanum, en það hefur þó ekki enn verið gert og hafa fleiri og fleiri varað við þessum áformum upp á síðkastið.

Jón Baldvin var gestur á Útvarpi Sögu á dögunum og ræddi þar við útvarpsstjórann Arnþrúði Karlsdóttur. Hann bendir á að um leið og samþykki liggi fyrir vegna orkupakka þrjú hafi um leið verið samþykkt að ekki megi mismuna þeim ríkjum sem selji orkuna og þar af leiðandi myndi hátt orkuverð í Evrópu leiða til hærra orkuverðs hérlendis.

Jón Baldvin telur að Ísland eigi alls ekki að samþykkja aðild að sameiginlegri orkustefnu Evrópu. Það geti orðið mikið ógæfuspor:

„Ísland á bara alls ekkert erindi þarna inn, orkupakkinn kemur okkur bara ekkert við og ég bara fullyrði það, lítið bara á landakortið, Ísland er enginn aðili að orkumarkaði Evrópu, bara alls enginn, við höfum engin tengsl við hann og höfum bara ekkert um hann að segja, svo einfalt er það“, sagði Jón Baldvin.