Eftir Árna Magnússon:
Það er töluvert um liðið frá árinu 1965 eða 53 ár. Þetta var árið sem ég fæddist og við tóku æsku- og unglingsár í hratt vaxandi Kópavogi þess tíma. Öllu hrært í sama pottinn, pönki og diskó, köldu stríði og kjarnorkuvá. Bjórinn var ekki leyfður og „dóp“ ekki í annars hvers manns vasa.
Það breytti ekki því að tvítugur var ég kominn að endimörkum í þróun þess sjúkdóms sem genin mín fólu í sér og nær dauða en lífi skreið ég inn á Vog, sem þá var nýbyggður, í ársbyrjun 1986.
Gæfa mín var mikil. Ég naut þess að Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann, frjáls félagasamtök, höfðu byggt upp öflugt meðferðarprógram með sterka tilvísun í 12-spora kerfi AA-samtakanna.
Ég var líka svo gæfusamur að fá að fara í meðferð á Vogi þegar mín alkóhólíska þvermóðska vék um stutta stund. Ég var þar í 12 daga og aftur féll lukkan mér í skaut þegar ég fékk boð um að fara í fjögurra vikna framhaldsmeðferð á Sogni.
Ég var kornungur maður, 20 ára, lífið að byrja en ég var við það að drepa mig. Þarna var mér gefið líf.
Ég er gallaður maður og meðal annars með genatískan fíknisjúkdóm
Við tóku ár þar sem ég naut leiðsagnar þeirra sem gengið höfðu götu edrúmennskunnar á undan mér. En ekki bara það. Ég naut áfram þeirrar stórkostlegu þjónustu sem áhugamannasamtökin góðu höfðu hörðum höndum og með stuðningi íslenskrar þjóðar, byggt upp. Ég gat sótt mér ráðgjöf og námskeið í Síðumúlann, ég fékk að fara í vikudvöl að Sogni þegar ég fagnaði eins árs edrúmennsku og aftur þegar ég hafði verið edrú í 2 ár.
Ég er gallaður maður og meðal annars með genatískan fíknisjúkdóm, en án áfengis og með því að stunda mitt prógram tókst mér að verða nýtur þjóðfélagsþegn. Ég vann mína vinnu, borgaði skatta og bar mínar skyldur.
Þegar ég hafði verið edrú í fimm ár stóð ég á tilfinningalegum krossgötum, ég bar gæfu til þess að leita ekki í vímuna en ég var ekki langt frá því. Enn og aftur komu áhugamannasamtökin góðu mér til bjargar. Mér bauðst að fara í „uppherslu“ á Vogi og þaðan í eftirmeðferð á Staðarfell. Á þessum tíma fannst mér þetta nánast sjálfsagður hlutur. Ég var alkóhólisti og þetta voru meðferðarúrræðin.
Nú eru að verða 33 ár síðan ég síðast var rænulaus af vímu. Ef ekki hefði verið fyrir SÁÁ væri ég löngu dauður. Alveg kristalklárt. Ég hefði kannski þraukað einhver ár, orðið baggi á samferðarfólki mínu en síðan hefði sjúkdómurinn minn klárað mig eins og alla þá sem ekki bregðast við honum.
Nú er mikið um það rætt hvernig komið er fyrir okkur sem þjóð þegar kemur að meðferð fíknisjúklinga. Á fimmta tug manna eru sannarlega dánir á síðustu mánuðum úr þessum sjúkdómi.
Mér heyrðist Kári Stefánsson segja um daginn að fíknisjúkdómurinn dræpi fleiri á aldrinum 18-40 ára en allir aðrir sjúkdómar samanlagt hér á landi.
Það eru 600 manns sem bíða eftir plássi á Vogi.
Og það kostar 200 milljónir á ári að fjölga daglegum innlögnum á Vogi úr 6 í 8, sem er það sem þarf til að eyða biðinni.
Erum við í alvöru að ræða þetta? Er það þannig í alvöru að það sé ekki meiri kraftur, meiri dugur, meiri samkennd og samúð hjá þeim sem með fjárveitingar fara að þeir klári ekki málið?
Hvað þurfa margir að deyja í viðbót? Hversu margt ungt fólk að falla? 50? 60? 70?
Hvað er ásættanleg fórn í huga ykkar sem með valdið farið um þessar mundir?
Mér er spurn.
Höfundur er fv. þingmaður og ráðherra.