Með gasgrímur að reisa nýjan alþjóðaflugvöll í Hvassahrauni?

Tölvugerð mynd sem unnin var fyrir Icelandair af nýjum flugvelli í Hvassahrauni áður en nýtt eldgosatímabil hófst á Reykjanesinu.

„Nú þarf að slá í klárinn og hefja löngu tímabærar framkvæmdir við risastóran alþjóðaflugvöll í Hvassahrauni. Skiptir þá engu þótt verktakar og verkamenn þurfi að bera gasgrímur á vettvangi. Þegar þessu er lokið getum við notað afganginn í að ljúka við Borgarlínu og nýja Þjóðarhöll í Laugardal. – krakkar það er miklu meira en nóg til!“

Þetta skrifar Stefán Einar Stefánsson blaðamaður á Morgunblaðinu í léttum dúr á fésbókinni í tilefni enn einna jarðeldanna á Reykjanesi og rifjar upp ekki svo gamlar hugmyndir um að reisa nýjan flugvöll í Hvassahrauni fyrir alþjóðaflug og innanlands.

Stefán Einar Stefánsson á Mogganum hittir oft naglann á höfuðið.

Aðeins eru fjögur ár frá því að erlendir ráðgjafar Icelandair sögðu stækkunarmöguleika á Keflavíkurflugvelli takmarkaða til lengri tíma litið og flugstöðin þar hentaði illa tengiflugi. Því gæti nýr millilandaflugvöllur í Hvassahrauni stutt betur við rekstur íslenskra flugfélaga heldur en Keflavíkurflugvöllur.

En síðan hefur margt gerst. Ekki aðeins er hafið nýtt gostímabil á Reykjanesi sem getur staðið í 2-300 ár, heldur er alls ekki víst að við verðum alltaf svo heppnir Íslendingar, að fá lítil og sæt túristagos fjarri mannabyggðum. Eru kannski fógnar einhverjar vísbendingar í örnefnum á borð við Hvassahraun og Kapelluhraun? Innviðir gætu verið í hættu, vísindamaður benti kurteislega á í gær að Hafnfirðingar eigi ef til vill ekki að byggja meira í suður til framtíðar og hlaut bágt fyrir hjá bæjarstjóranum þar. Það er víst ekki vinsælt að segja sannleikann.

Blasir ekki frekar við að byggja þurfi upp annan alþjóðaflugvöll til framtíðar fjarri glóandi hrauni, gasmengun og jarðskjálftum? Eða eigum við bara að taka sénsinn og sjá hvað gerist næst? Hvar skyldi gjósa í fjórða, fimmta eða sjötta sinn á Reykjanesinu?