„Menn vaða bara áfram án þess að hlusta á grasrótina“

„Mér er ekki skemmt,“ segir Bergur Þorri Benjamínsson, formaður Sjálfsbjargar og fv. formaður Velferðarnefndar Sjálfstæðisflokksins, um þær tillögur meirihluta fjárlaganefndar, sem kynntar voru í gær, að lækka milli fyrstu og annarrar umræðu fjárlaga framlög til ýmissa málaflokka til að bregðast við hækkandi verðbólgu og gengissigi. Fram hefur komið að áður boðuð hækkun á framlögum til öryrkja eru tekin niður um 1.100 milljónir króna.

Í samtali við Viljann segist Bergur Þorri vera búinn að fá stuðning landsfundar til að gegna trúnaðarstöðum m.a sem formaður Velferðanefndar Sjálfstæðisflokksins og um langt skeið hafi verið unnið að kerfisbreytingum sem taldar séu forsendur fyrir bættum kjörum öryrkja.

Allan þann tíma er búið að tala um að kerfisbreyting sé forsenda fyrir bættum kjörum.

„En menn vaða bara áfram án þess að hlusta á grasrótina,“ segir Bergur Þorri og bendir á að öryrkjar hafi fengið þau skilaboð að þeir ættu að setja fram tillögur um ráðstöfun á þeim fjórum milljörðum sem átti að setja aukalega í málaflokkinn í fjárlögum fyrir árið 2019. Nú eigi að lækka það niður í 2,9 milljarða króna.

„Við höfum kallað eftir afnámi krónu á móti krónu skerðingarinnar og það liggur fyrir hvað það kostar. Þessi breyting nú setur slík áform í uppnám,“ segir Bergur Þorri.

Hann situr í Fræðsluráði Hafnarfjarðar. „Ég mun gera það áfram og ég ber fullt traust til þeirra sem treystu mér fyrir því. En ég get ekki sagt annað en að ég hljóti að hugsa mig um með tilliti til þeirra skilaboða sem forysta flokksins á landsvísu er að gefa mér með því að leggja blessun sína yfir þessar æfingar. Ég hef gengt trúnaðarstörfum fyrir þingflokk Sjálfstæðisflokksins,“ segir hann og bætir við: „Ég ætlaði alltaf að reyna nota mín tengsl til bættra kjara fyrir hinn almenna öryrkja, en það hefur ekki tekist.“