Andstaða við innleiðingu svonefnds þriðja orkupakka Evrópusambandsins í íslensk lög virðist fara vaxandi. Eins og fram kom í fréttaskýringu Viljans í gær, er mjög tekist á um málið innan Sjálfstæðisflokks enda þótt iðnaðarráðherra flokksins hyggist leggja fram lagafrumvörp um málið í febrúar. Miðflokkurinn hefur lagst alfarið gegn innleiðingunni og framsóknarmenn í kraganum ályktuðu gegn innleiðingunni um helgina.
Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, segir miklar efasemdir meðal framsóknarmanna um innleiðingu þriðja orkupakkans. „Þetta verður rætt á haustfundi miðstjórnar um næstu helgi. Flokksþing hefur ályktað gegn orkupakkanum og þetta er eitthvað sem okkar bakland vill fara gaumgæfulega yfir, enda rík ástæða til,“ segir Lilja í samtali við Morgunblaðið í dag.
Hún sagði ljóst að það sé skýrt í hennar huga að Framsóknarflokkurinn taki ekki þátt í að samþykkja framsal fullveldis til stofnana sem Ísland eigi ekki aðild að.
Á kjördæmisþingi framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi um helgina var samþykkt að hafna þriðja orkupakkanum. Gæta verði að ekki verði tekið upp ónauðsynlegt og hamlandi regluverk sem sniðið er að aðstæðum á meginlandi Evrópu.
EES í uppnámi?
Ekki er fyllilega ljóst hvað það þýðir fyrir aðild Íslands að EES-samstarfinu hafni íslensk stjórnvöld því að innleiða orkupakkann. Noregur og Liechtenstein hafa þegar leitt pakkann í þarlend lög í samræmi við tilskipanir EES-samningsins og samkomulagið við Evrópusambandið.