Misvísandi skilaboð? Samfylkingin í Suðurkjördæmi vill aðild að ESB og taka upp evru

Samfylkingin í Suðurkjördæmi telur brýnt að bæta hagstjórn á Íslandi til að bæta lífskjör almennings í landinu. Aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru séu hvort tveggja atriði sem munu auðvelda íbúum Íslands að ná því markmiði.

Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi fyrr í mánuðinum. Oddviti flokksins í kjördæminu er Oddný Harðardóttir, fv. þingflokksformaður flokksins um árabil og fjármálaráðherra.

Athygli vekur að ályktunin er ekki í samræmi við nýjar áherslur Samfylkingarinnar á landsvísu undir stjórn Kristrúnar Frostadóttur. Fyrr í haust sagði hún aðild Íslands að Evrópusambandinu ekki lengur á dagskrá Samfylkingarinnar og flokkurinn myndi ekki vilja fara í þá vegferð að fara af stað með mál sem ljóst er að kljúfi þjóðina.