Nýkominn frá átakasvæðinu: „Það er erfitt að segja frá því sem við sáum og við heyrðum“

Í umræðum á Alþingi í gær þar sem samþykkt var einróma ályktun um afstöðu Íslands vegna átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs, flutti Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, áhrifamikla ræðu, en hann er nýkominn heim eftir ferðalag á þessari slóðir.

„Frú forseti. Ég styð tillöguna sem hér liggur fyrir og fagna því að Alþingi hafi náð sameiginlegri niðurstöðu um hana. Það eru nokkur atriði sem ég hefði viljað orða aðeins með öðrum hætti en ég tel mikilvægt að þessi samstaða hafi náðst, ekki síst að fordæma allt ofbeldi. Við erum friðelskandi þjóð, Íslendingar, og við eigum að fordæma allt ofbeldi og mannslíf á Gaza eru jafn dýrmæt og mannslíf í Ísrael.

Frú forseti. Ég er nýkominn frá þessu átakasvæði þar sem ég var í eina viku og byrjaði á því að funda með palestínskum stjórnvöldum í Ramallah og fundaði síðan með ísraelskum stjórnvöldum. Ég var í hópi 16 þingmanna frá sjö löndum, 16 þingmanna Evrópusambandsins. Ég heimsótti samyrkjubú þar sem þessi hroðalegu hryðjuverk Hamas-samtakanna áttu sér stað. Það mun aldrei á minni ævi líða mér úr minni og það er erfitt að segja frá því sem við sáum og við heyrðum.

Það er rétt að taka það fram að það er verið að mótmæla þessu stríði víða í Evrópu, London og menn segja þar í þessum mótmælum að þetta sé allt lygi, hvernig Hamas kom fram við óbreytta borgara. En það er nú einu sinni þannig að þessi hryðjuverkamenn höfðu myndavélar framan á sér, svokallaðar búkmyndavélar, og tóku upp allt sem þeir gerðu. Þegar tókst að fella þá tóku Ísraelsmenn þessar upptökur og hafa sett saman. Það er til 47 mínútna löng mynd um þessi hroðalegu hryðjuverk og við fengum að sjá þessa mynd.

Og hver hefði trúað því, hv. þingmenn, að ungbarn yrði sett inn í bakarofn og hver hefði trúað því að kornabörn væru afhöfðuð og farið með höfuðið inn á Gaza? Hver hefði trúað því að unglingar væru afhöfðaðir með garðyrkjuverkfærum? Þetta er þvílík hörmung, ágætu þingmenn, að það er vart hægt að lýsa því. Fjölskyldur brenndar, fólk skotið í rúmum sínum sofandi, konum nauðgað ítrekað, fóstur skorin úr móðurkviði.

Þetta er mannvonska sem orð fá ekki lýst. Þetta er ástæða þess að hörmungar dynja yfir saklaust fólk á Gaza.

Þetta er mannvonska sem orð fá ekki lýst. Þetta er ástæða þess að hörmungar dynja yfir saklaust fólk á Gaza.

Þingmannahópurinn var spurður að því, þegar við fórum í þinghúsið og ræddum við þingforsetann í Knesset í Jerúsalem, þeir spurðu okkur: Hvað hefðuð þið gert, hvað mynduð þið gera, ágætu þingmenn, þegar tæplega 2.000 hryðjuverkamenn ráðast inn í landið ykkar alvopnaðir og drepa á miskunnarlausan hátt eins og ég hef lýst hér, og á eftir þeim kæmu 2.000 almennir borgarar með axir, hnífa, skóflur og stælu öllu steini léttara og tækju gísla með sér yfir á Gaza? Hvað mynduð þið gera ef það væri skotið á ykkur 9.000 eldflaugum og teknir 240 gíslar frá 20 löndum? Mynduð þið kalla eftir vopnahléi? Það sló þögn á þingmannahópinn og við höfðum engin svör.

Ástandið á þessu svæði er svakalegt og stigmögnun átakanna gæti hæglega gerst í dag. Síðasta daginn sem ég var í Tel Aviv var skotið sjö eldflaugum á þá borg. Ég fór tvisvar sinnum niður í loftvarnabyrgi og þann sama dag var skotið stýriflaug frá Jemen í átt að Eilat sem er við Dauðahafið í landi Ísraels. Ísraelsmönnum tókst að skjóta niður þá eldflaug fyrir ofan himinhvolfið í 1.600 metra fjarlægð frá Jemen. Hvað ef þeim hefði ekki tekist að skjóta niður þessa eldflaug? Bandaríkjamenn eru með tvö flugmóðurskip og einn kafbát á þessu svæði til að koma í veg fyrir þriðju heimsstyrjöldina.

Kæru þingmenn. Það er veruleg hætta á því að við eigum eftir að horfa upp á margfalt verri aðstæður en hér er verið að fjalla um. En við sem friðelskandi þjóð getum að sjálfsögðu fordæmt og eigum að fordæma allt þetta ofbeldi.

Ég vona að þessi tillaga verði samþykkt hér einróma og hún sendi þau skilaboð út í umheiminn að Ísland sé friðelskandi þjóð og við vonum að þessum hörmungum linni, að það takist að frelsa palestínsku þjóðina frá Hamas-samtökunum og hefja viðræður um frið og tveggja ríkja lausn sem við styðjum.“