Nýtt afbrigði frá Afríku af COVID-19 veldur miklum áhyggjum

Bresk stjórnvöld settu ferðatakmarkanir á sex Afríkulönd í kvöld vegna nýs afbrigðis af COVID-19 sem vísindamenn segja það versta sem þeir hafi greint hingað til og geti verið meira smitandi en Delta-afbrigðið sem tröllriðið hefur heimsbyggðinni að undanförnu.

Breski heilbrigðisráðherrann sagði í yfirlýsingu í kvöld að afbrigðið, sem hefur ekki enn fengið annað heiti en B.1.1529, hafi komið upp í Suður Afríku og virðist hvort tveggja meira smitandi en Delta-afbrigðið og þar að auki kunni bóluefni að virka síður gegn því.

Svo virðist sem bindiprótein afbrigðisins sé töluvert frábrugðið því sem hingað til hefur þekkst. Í því er að finna um 30 stökkbreytingar, tvöfalt meira en í Delta-afbrigðinu, og sá mikli fjöldi gæti komið í veg fyrir að bóluefni virki nægilega vel sem vörn gegn alvarlegum veikindum.

Fram kemur í fréttum Sky-fréttastofunnar í kvöld, að afbrigðið greinist þó vel í hefðbundnum PCR-prófum.