Óánægja með úttekt innri endurskoðunar á Orkuveitunni

Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar mun ljúka við úttekt á vinnustaðamenn­ingu og til­tekn­um starfs­manna­mál­um hjá Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélögum á næstu dögum. Óánægja er meðal margra starfsmanna með fyrirkomulag úttektarinnar, þar sem stjórnendur sem eiga að vera til skoðunar, koma að henni og vinna að gagnaöflun.

Viljinn hefur rætt við starfsmenn Orkuveitunnar, en enginn vill koma fram undir nafni af ótta við að það skaði starfsframa þeirra innan samstæðunnar. Vísað er til þess að óskað hafi verið eftir ábendingum starfsmanna um það sem betur mætti fara eða aflaga hafi farið, en farið hafi verið fram á að slíkt yrði gert undir fullu nafni en ekki með nafnleynd. Fyrir vikið vilji fæstir starfsmanna koma ábendingum á framfæri, enda geti ábendingarnar varðað yfirmenn þeirra.

Þá er bent á að Bjarni Bjarnason, sem er í leyfi sem forstjóri Orkuveitunnar meðan unnið er að úttektinni, hafi sagt mikilvægt að gefa úttektaraðilum frið til að vinna sína vinnu. Hins vegar komi tveir nánustu samstarfsmenn hans að úttektinni, annars vegar mannauðsstjóri fyrirtækisins og hins vegar lögmaður OR sem jafnframt er ritari stjórnar. Ljóst sé að úttektinni sé meðal annars ætlað að fara yfir störf þeirra hjá fyrirtækinu og því fjarri öllum sjónarmiðum um armslengd að þeim hafi verið falið að koma að gagnaöflun og samskiptum við úttektarhópinn af hálfu fyrirtækisins.

Gagnrýni starfsmannanna er athyglisverð í því ljósi, að stjórnarmenn í OR óskuðu sérstaklega eftir því að óháður aðili yrði fenginn til að rannsaka ásakanir sem hafa komið fram um kynbundna mismunun og áreiti innan fyrirtækisins, en meirihluti stjórnar fyrirtækisins vildi að Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar kæmi að henni. Varð það úr.

„Þetta lyktar því miður af því að niðurstaðan sé ákveðin fyrirfram og ekki sé vilji til að velta við öllum steinum,“ sagði starfsmaður Orkuveitunnar í samtali við Viljann í skjóli nafnleyndar. Hann bætti þó við, að auðvitað voni starfsmenn að úttektin verði faglega unnin og tekið á þeim málum sem upplýst hafi verið um opinberlega og eins öðrum sem þekkt séu meðal starfsfólks en ekki annarra.